145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er varla að það taki því að koma hér til þess að eyða 5 mínútum til að ræða merkasta og mikilvægasta frumvarp sem verður lagt fram á þessum þingvetri. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem sagði áðan að það væri nánast smekklaust hversu skammur tími þingmönnum væri ætlaður til þess að ræða það. Fyrir rétta og slétta ræfla eins og mig er okkur úthlutað þessum tíma, 5 mínútum, til að fara yfir frumvarpið og við megum ekki einu sinni fara í andsvör við okkar ágæta hæstv. fjármálaráðherra.

Allt um það. Hér hafa menn farið höndum um þetta frumvarp í dag sem eru mér miklu vísari að þekkingu og vélráðum ef því er að skipta varðandi fjárlagafrumvarpið. Ég ætla ekki að fjalla um hina stóru drætti þess sökum þess hvernig er skammtaður hér tími til umræðunnar, hins vegar langar mig að ræða málaflokk sem ég drap lítillega á í andsvörum í dag við hv. þingmann Unni Brá Konráðsdóttur og það er hvernig farið er höndum um málefni flóttafólks og þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Það er málaflokkur sem oft hefur legið utangarðs. Góðu heilli, finnst mér, miðað við umræður síðustu vikur, er að skapast skilningur á því að Ísland þarf í fyrsta lagi að gera það sem þarf til að standa undir siðferðilegum kröfum á hendur þess en í öðru lagi líka til þess að standast þær skuldbindingar sem við höfum skrifað undir. Það er starfandi sérstök þingmannanefnd, þverpólitísk, sem vinnur að því að gera nýtt frumvarp að lögum um þá sem sækja hér um alþjóðlega vernd. Það stappar kraftaverki næst að innan þeirrar nefndar er órofa samstaða um málefni sem við töldum fyrir fram að yrði mjög erfitt að sameina kraftana um. Þess vegna finnst mér mikilvægt að í heimi stjórnmálanna haldi sú samstaða. Það sækir að mér svolítill uggur þegar ég les fjárlagafrumvarpið. Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn skilji ekki alveg hvernig þessi málaflokkur hefur breyst, að vandinn er orðinn miklu meiri en áður og hvað þau vandamál sem sá litli kimi stjórnsýslunnar sem sinnir málaflokknum eru stór orðinn.

Í fyrsta lagi langar mig að drepa á það að hæstv. ríkisstjórn, góðu heilli, setti niður sérstaka ráðherranefnd og andspænis því að 17 þús. Íslendingar skrifa undir áskorun um að hækka þá tölu sem hæstv. ríkisstjórn hafði ákveðið að taka við sem skilgreindum kvótaflóttamönnum, þá lýstu flestir ráðherrar því yfir að þeir hygðust beita sér fyrir því að þessi tala yrði hækkuð; hæstv. forsætisráðherra, félagsmálaráðherra, utanríkisráðherra og ég man ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra gerði það líka. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra ef hann má vera að því að eiga orðastað við mig, hæstv. forseti: Hvar í frumvarpinu á að taka peninga, af hvaða lið, til kvótaflóttafólks? Nú er það svo að þessum 50 á að skipta á tvö ár, þetta ár og síðan næsta ár. Hver kostar fyrsta árið 5 millj. kr. samkvæmt því sem kemur fram í frumvarpinu. Það þarf því 125 millj. kr. í það. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar get ég fundið þessa tölu? Ég fann hana ekki, reyndar fann ég ekki einu sinni orðið „kvótaflóttamenn“ eða „kvótaflóttafólk,“ þrátt fyrir að eitt af meginviðfangsefnum ráðherranefndarinnar væri að fjalla um það.

Í öðru lagi er nýlega búið að samþykkja, koma á fót, móttökumiðstöð, það er búið að gera samning við Rauða krossinn. Hann var lágt metinn en grunnur hans er þó að kostnaðurinn er 170 millj. kr. Ég finn þennan lykillið hvergi í fjárlagafrumvarpinu.

Það eru þrír aðrir liðir sem ég vil nefna. Kærunefnd útlendingamála, hali hennar er tvöfalt lengri en þegar hún var sett á stofn í byrjun janúar. Það er tekið til baka 24 millj. kr. tímabundið framlag, sett annað 29 millj. kr., með öðrum orðum er nánast engin aukning þarna.

Ef við lítum á Útlendingastofnun er svipað uppi þar. Hún á við miklu stærri vandamál að glíma, er oft gagnrýnd en heldur sjó með aðdáunarverðum hætti. Þar er minnkað um 24 millj. kr.

Hælisleitendur, liður 311, hann finnst mér eiginlega kvíðvænlegastur. Það er settar 475 millj. kr. í það, 400 er þegar ráðstafað í tvo samninga við Reykjavíkurborg og Reykjanesbæ sem eiga að sjá um 140 flóttamenn samtals, en bara á þessu ári verða þeir 300 (Forseti hringir.) og að öllum líkindum fleiri á næsta ári. Ég spyr hæstv. ráðherra. Hvernig ætlar hann að bregðast við því sem blasir við, að þarna er verulega stórt gat (Forseti hringir.) sem þarf að stoppa í?