145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn til hamingju með það og þá staðreynd að við erum að skila fjárlagafrumvarpi í þriðja sinn sem er hallalaust og við erum á nýjan leik að styrkja innviði samfélagsins á fjölmörgum sviðum eins og hefur komið fram í umræðunni. Ég verð þó að segja að þetta er 1. umr. um málið og að sjálfsögðu á það eftir að fara til fjárlaganefndar og sá sem hér stendur ásamt öðrum þingmönnum á eftir að fá betri tíma og meira tóm til að skoða þessi mál.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um þá staðreynd hér í dag að við skulum vera að skila hallalausum fjárlögum. Vissulega er það vegna þess að allar þær ríkisstjórnir sem hafa verið hér frá því að efnahagshrunið varð hafa tekið og ráðist í hagræðingu ýmiss konar. En eru það stóru ástæðurnar fyrir því að við erum að skila hallalausum fjárlögum í dag?

Ef við berum okkur saman við lönd sem lentu í sambærilegum aðstæðum og við gerðum, þá er það einkum og sér í lagi þrennt sem mér finnst skipta höfuðmáli þegar kemur að því nú að við skilum hallalausum fjárlögum og erum í þeirri stöðu sem við erum. Það er í fyrsta lagi sú staðreynd að hér voru sett neyðarlög á sínum tíma og bankakerfið var tekið út fyrir og ríkið tók ekki á sig þær skuldir sem einkaaðilar höfðu stofnað til. Þeir sem komu að því, hvort sem það voru stjórnvöld, Seðlabanki eða aðrir og börðust fyrir því að þau yrðu sett á sínum tíma við erfiðar aðstæður, eiga auðvitað heiður skilinn fyrir það.

Í öðru lagi var á síðasta kjörtímabili áfram reynt að ríkisvæða skuldir einkaaðila en það tókst að koma í veg fyrir það. Á sama tíma og lönd sem við berum okkur saman við í Suður-Evrópu voru á fullu að þjóðnýta einkaskuldir þá börðumst við Íslendingar gegn því, bæði í þingsal, almenningur, forsetinn kom að því og á heiður skilið, börðumst gegn því að þjóðnýta einkaskuldir.

Síðan í þriðja lagi og lokaáfanginn í því að berjast gegn því að einkaskuldir væru þjóðnýttar er það uppgjör þrotabúa föllnu bankanna. Sú staðreynd að við erum núna að gera upp þrotabúin og höfum yfir höfuð getað tekið þau svona út fyrir eins og gert var með neyðarlögunum á sínum tíma, uppgjörið sem þar er að gerast, mun auðvitað skipta ríkissjóð gríðarlegu máli þótt ekki sé gert ráð fyrir tölum þar að lútandi í fjárlagafrumvarpinu í dag. Þessir þættir öðru fremur eru þau atriði sem skipta máli þegar kemur að því að ríkissjóður er í þeirri gríðarlega góðu stöðu sem hann er í í dag. Þetta höfum við allt getað Íslendingar vegna þess að við erum sjálfstæð og fullvalda þjóð og því ber auðvitað að fagna og við getum ráðið okkar málum sjálf og tekið á okkar málum sjálf.

Síðan erum við auðvitað með mjög mörg atriði hérna sem þarf að skoða betur við vinnslu frumvarpsins og menn hafa komið inn á ýmiss konar mál. Mörg atriði sem hafa verið hérna í umræðunni eru tengd undirritun kjarasamninga og önnur varða húsnæðismálin, skattkerfisbreytingar og fleira. Þetta mun auðvitað verða skoðað áfram í fjárlaganefnd. Mörg atriði varða svo innviðauppbyggingu samfélagsins á sviði heilbrigðismála, menntamála o.s.frv.

Eitt atriði sem mér finnst persónulega mjög mikilvægt og ég hef sagt það og vil sjá breytingar á frumvarpinu og almennt í fjárlagagerðinni hvað það varðar, er að ég vil sjá miklu meiri áherslu lagða á byggðamál almennt og að við setjum aukið fjármagn til byggðamála, hvaða nafni sem þau nefnast, menntamál, samgöngumál og fleira. Ég er ekki með neitt afmarkað þar en ég held að við þurfum sem þjóð og sama hvar í flokki sem við stöndum að leggja miklu meiri áherslu á þann málaflokk en við höfum gert undanfarna áratugi. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að halda öllu landinu í byggð og það er verkefni okkar allra að gera það, sama hvort við búum á Norðurlandi, Vesturlandi, Suðurlandi eða á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt. Það verða til tekjur úti í hinum dreifðu byggðum landsins sem nýtast allri þjóðinni og það er gríðarlega mikilvægt að við setjum aukna innspýtingu í uppbyggingu í hinum dreifðu byggðum. Ég hef stundum tekið eitt svæði sem dæmi, sunnanverða Vestfirði. Fyrir ekki svo mörgum árum töldu menn að það svæði ætti sér ekki mikla von en þarna er verið að byggja upp ýmsa auðlindanýtingu í dag. Væri hún að byggjast upp og þær gjaldeyristekjur sem þarna eru að byggjast upp ef við hefðum veikt innviði samfélagsins meira en þó var búið að gera? (Forseti hringir.) Þetta á við allt í kringum landið og um þetta þurfum við að ná víðtækari sátt og leggja aukna áherslu á þetta.

(Forseti hringir.) Ég hlakka til að vinna þetta mál í fjárlaganefnd og þegar það kemur til 2. umr. þá mun ég halda langa og góða ræðu um þetta mál.