145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:35]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Af þessu tilefni vill forseti taka eftirfarandi fram: Það fyrirkomulag sem verið hefur núna á 1. umr. um fjárlagafrumvarpið var tekið upp við lok síðasta kjörtímabils og var afrakstur vinnu þáverandi fjárlaganefndar og byggðist raunar á hugmyndum sem komu fram í sérstöku frumvarpi sem fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka lögðu fram um breytingar á þingskapalögum. Strax í upphafi var sú stefna mörkuð að á síðari degi umræðunnar færi hún þannig fram að einstakir fagráðherrar hefðu framsögu og síðan gætu aðrir komið eftir tilteknum reglum og tekið þátt í umræðunni um þann tiltekna málaflokk. Það fyrirkomulag hefur í meginatriðum talist gefast vel þó að alltaf megi bæta þar úr.

Strax í upphafi var sú stefna mörkuð að hæstv. forsætisráðherra væri ekki þátttakandi í þessum umræðum með hliðsjón af því að hann er ekki eiginlegur fagráðherra í þeim skilningi sem við leggjum jafnan í það hugtak. Það fyrirkomulag sem nú er er í samræmi við það sem var í upphafi og hefur verið frá því að það fyrirkomulag var tekið upp. Það var nefnt við hæstv. forsætisráðherra hvort hann vildi gera breytingu á því á þessu ári en hann kaus að gera það ekki.