145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Enn og aftur, ef það væri ekki þetta skýra mynstur í hegðun hæstv. forsætisráðherra hefði maður kannski ekki það miklar áhyggjur af þessu, en auðvitað er hér um að ræða milljarð sem við þurfum að ræða við fagráðherra. Það get ég ekki séð að sé einhvern veginn valkvætt. Eina spurningin er hvaða ráðherra við eigum að tala við. Ef ekki hæstv. forsætisráðherra, þá hvern?

Nú veit ég ekki betur en að það sé einmitt að frumkvæði hæstv. forsætisráðherra að hann taki að sér þessa málaflokka og þess vegna er algjörlega sjálfsagt að hann komi og ræði við okkur um fjármögnun á þeim. Þetta er ofboðslega sjálfsagt. Ég skil alveg að ráðherrar eru uppteknir, en hæstv. fjármálaráðherra hagar sér ekki svona. Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem við komum hérna og kvörtum undan hæstv. forsætisráðherra. Hann er eini ráðherrann sem hagar sér svona trekk í trekk, eiginlega alltaf, eins og er sagt svo réttilega. Þetta er regla frekar en undantekning.