145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Enn og aftur þakka ég þingmanninum fyrir ræðuna. Þegar fjárlagatillögurnar eru settar fram, þingskjalið fer í prentun og er samþykkt er gert ráð fyrir ákveðnum forsendum. Þær forsendur kunna síðan að breytast akkúrat hvað varðar þennan lið.

Þarna eru þeir fjármunir sem meðal annars eru ætlaðir til að sinna flóttamönnum. Ég geri ráð fyrir að sá liður komi til með að breytast á næstu vikum í meðförum þingsins vegna þeirrar vinnu sem nú er í gangi þar sem verið er að fara yfir hve mikið við getum bætt í, hve mikið við getum gert varðandi móttöku flóttamanna og þess háttar.

Við munum þurfa fjármuni hér heima fyrir til að sinna þeim sem hingað koma en við þurfum að sjálfsögðu líka að auka það fjármagn sem við höfum til að sinna flóttamönnum á vettvangi, í flóttamannabúðum eins og við höfum lagt mikla áherslu á í gegnum alþjóðastofnanir, í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Já, ég geri ráð fyrir að þessi liður eigi eftir að taka töluvert miklum breytingum því að það er sannarlega vilji hjá ríkisstjórninni til að bæta í hvað varðar móttöku flóttamanna.

Það heyrir undir innanríkisráðherra og ég er ekki hér til að svara fyrir það embætti en að sjálfsögðu þarf líka að bæta í varðandi hælisleitendur og annað.