145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og spurningarnar. Jú, ég er sammála hv. þingmanni um að utanríkismál mættu gjarnan fá meiri umræðu og meira vægi innan þingsins. Fyrst að þingmaðurinn nefnir hér sérstaklega alþjóðasamninga og þess háttar þá kasta ég því bara fram hvort ástæða sé til þess fyrir okkur að setjast aðeins yfir það og taka saman einhvers konar plagg og fara yfir það í utanríkismálanefnd þar sem við rennum yfir þessa samninga, hvað þeir þýða o.s.frv. Það er mikilvægt að allir séu upplýstir um skuldbindingar okkar. Þetta eru margir samningar og ég verð að viðurkenna að það tók mig býsna langan tíma að hætta að heyra nýjar skammstafanir á einhverjum samningum sem við erum aðilar að. Þannig er þetta nú bara, við skulum reyna að fara yfir það.

Varðandi loftslagsmálin þá er það rétt hjá hv. þingmanni að þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Þetta er eitt af stærstu málunum sem er á okkar dagskrá á næstu mánuðum. Við höfum talað mjög ákveðið fyrir því að allir þurfi að leggja eitthvað af mörkum þegar komið er til Parísar í desember, við höfum gert það nánast alls staðar þar sem við komum. Nýlega var ég í Alaska á fundi þar sem við nefndum þetta sérstaklega.

Við höfum ákveðið að taka þátt í þessari kúlu, sem kölluð er, eða bólu með Norðmönnum og Evrópusambandinu þar sem þessi hópur skuldbindur sig til að minnka losun um 40% áður en það tímabil sem um er að ræða rennur út, 2030, ef ég man rétt.

Hver okkar hlutur verður nákvæmlega í þessu liggur að sjálfsögðu ekki fyrir. Það kann að kalla á aukinn kostnað, við vitum það ekki enn þá. Það er aðeins bætt í í loftslagsmálin í þessu frumvarpi varðandi utanríkisráðuneytið, um 8 millj. kr., eitthvað svoleiðis. Önnur ráðuneyti tengjast þessu vitanlega líka, umhverfisráðuneytið, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og væntanlega fleiri. Við erum því mjög meðvituð um að þarna þurfum við að leggja okkar af mörkum og við þurfum að sjálfsögðu að fylgja því eftir hvernig við nálgumst þetta.

Ísland er komið mjög langt í því að nýta það sem það getur nýtt í að jafna mengun og útblástur og þess háttar, (Forseti hringir.) en við þurfum að vera býsna hugmyndarík til að finna leiðir til axla ábyrgð, við getum gert það í samgöngum, (Forseti hringir.) skipum o.s.frv. Við þurfum bara einfaldlega að fara í það.