145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að ræða við hæstv. utanríkisráðherra. Það eru málefni þróunarsamvinnu sem mig langar sérstaklega að gera að umtalsefni eins og raunar oft áður í samtali við hæstv. ráðherra.

Það er hryggilegt hversu langt við Íslendingar stöndum að baki nágrannaþjóðum okkar í þessum efnum, þ.e. að ná þeim markmiðum sem hafa verið samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að færa framlög til þróunarsamvinnu upp í 0,7% af vergri landsframleiðslu. Við sjáum fleiri Evrópuþjóðir ná þessum markmiðum, ekki síst kannski vegna þess að ástandið í heiminum mun kalla á að stöndugri þjóðir þessa heims leggi meira af mörkum. Þar nægir að nefna mál á borð við þau sem hér voru til umræðu áðan eins og loftslagsbreytingar en líka þau stríðsátök sem við horfum upp á. Því fyrr sem við förum að stíga markvissari skref í átt að þessu markmiði, þeim mun betra.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í þetta frumvarp hér þar sem gert er ráð fyrir að framlög til þróunarsamvinnu nemi 0,21% af vergum þjóðartekjum, sem sé óbreytt hlutfall frá fjárlögum ársins 2015. Hæstv. ráðherra lagði hér fram, en það náðist ekki að klára hana, tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands á árunum 2016–2019. Þar er lagt til að hlutfallið verði vissulega ekki 0,7% en 0,23%. Markmiðið sem birtist í tillögunni sem var ekki kláruð er 0,23% af vergri landsframleiðslu en markmiðið sem við sjáum hins vegar hér í frumvarpinu fyrir árið 2016 er 0,21%. Fólki kann að virðast þetta lítill munur en eins og hæstv. ráðherra þekkir, og við sem hér erum, þá munar verulega miklu um þessa fjármuni.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hverju sæti, hvort hann muni leggja fram tillögu um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu nú á þessu þingi sem geri þá ráð fyrir lægra hlutfalli á árinu 2016 og hvort við eigum von á því að enn verði dregið úr metnaðinum í alþjóðaþróunarsamvinnu.

Ég vil nota tækifærið hér í lokin og brýna hæstv. ráðherra mjög í þessum efnum. Ég held að sú staða sem við sjáum núna, og margir hafa gert að umtalsefni í dag, flóttamannastraumur og mjög þung staða víða um heim, eigi eftir að kalla á að við leggjum enn meiri fjármuni í þróunarsjóðinn.