145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja í svipuðum dúr og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir varðandi friðlýsingar. Nú kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, þó ekki undir kafla hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, að enn sé gert ráð fyrir fjármagni til Orkustofnunar vegna nýtingarflokks rammaáætlunar en ég sé ekki neitt sérstakt eyrnamerkt fjármagn til verndarflokks rammaáætlunar í ráðuneyti umhverfismála, hvorki hjá Umhverfisstofnun né í ráðuneytinu sjálfu virðist áformað með eyrnamerktu fjármagni að fylgja sérstaklega eftir ákvörðun þingsins um tilteknar friðlýsingar á grundvelli rammaáætlunar. Þess sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu og af því hef ég áhyggjur.

Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að meira fé verði lagt í friðlýsingar almennt. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að fara yfir það hvernig ráðuneytið og/eða Umhverfisstofnun hyggst forgangsraða þeim friðlýsingarverkefnum sem eru á borðinu, þ.e. annars vegar að því er varðar friðlýsingar á grundvelli rammaáætlunar sem hér hefur verið vikið að og hins vegar friðlýsingar á grundvelli gildandi náttúruverndaráætlunar en síðast en ekki síst löngu samþykkta friðlýsingu í Þjórsárverum sem hefur setið á hakanum missirum saman. Hvað líður þeim málum? Við brýndum hæstv. ráðherra töluvert á síðasta þingi í að gera gangskör að friðlýsingum. Ég heyrði ekki betur þá en ráðherrann ætlaði að láta þess sjá stað með myndarlegum hætti í núverandi fjárlagafrumvarpi. Ég verð að segja að það er nú heldur slakara en ég hafði vonast til að sjá. Metnaðarleysið í friðlýsingarmálum er með algerum ólíkindum hvort sem um er að kenna ráðuneytinu sjálfu, ráðherranum eða Umhverfisstofnun. Ég vil enn brýna ráðherrann til dáða í þeim efnum.

Í öðru lagi vil ég spyrja af því að það var svo óþægilegt og sérkennilegt í morgun þegar þessi umræða hófst og við í stjórnarandstöðunni þurftum að vekja athygli á þeirri staðreynd að hæstv. forsætisráðherra neitaði að hitta þingið að því er varðaði hans kafla í fjárlagafrumvarpinu sem lýtur sérstaklega að menningarminjum, Þjóðminjasafni og fleiri þáttum. Þar er ástæða til að ræða sérstaklega Þingvallaþjóðgarð. Við sitjum nú báðar, ég og hæstv. ráðherra, í Þingvallanefnd og ég fagna að þar er gert ráð fyrir að auka framlagið til framkvæmda. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin hafi farið sérstaklega yfir samanburðinn á þeirri meðferð sem einstakir þjóðgarðar fá í fjárlagafrumvarpinu þar sem Þingvallaþjóðgarður nýtur sérstakrar velvildar en Vatnajökulsþjóðgarður liggur óbættur hjá garði.