145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, varðandi mögulegt samstarf Landspítalans og svokölluðu kragasjúkrahúsanna fagna ég öllum slíkum áformum. Það er raunar í gangi, ég átti síðast fund með Landspítalanum og forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands um möguleika í þessum efnum. Ég tel að hlutverk Landspítalans á komandi árum muni einfaldlega styrkjast gagnvart þessum þætti mála, sömuleiðis Sjúkrahússins á Akureyri gagnvart því svæði sem kalla má nærsvæði þess. Þessi stóru sjúkrahús þurfa að axla meiri ábyrgð á þjónustu út á þessi svæði en verið hefur. Ég hef ekki skynjað annað en að forsvarsmenn slíkrar þjónustu á spítölunum og raunar á heilbrigðisstofnunum víða um land hafi mjög mikinn hug á að vinna í þeim anda. Það er mikið fagnaðarefni og ég vonast eftir því að innan tíðar sé hægt að taka einhver ákveðin skref í þá veru og veit það því að þar er verið að ræða tiltekna aðgerðaflokka, í tilfelli Vesturlands, sem gerir ekkert annað en að nýta betur fjárfestingu sem ríkið er búið að leggja þarna í mannskap, en ekki síst verður þetta til stórra bóta fyrir það fólk sem bíður eftir tilteknum læknisverkum sem illa er hægt að anna hér vegna mikilla verkefna á Landspítalanum við Hringbraut eða í Fossvogi.