145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þetta síðasta varðandi umræðuna um ferðaþjónustuna. Jú, það getur vel verið að það sé ekki alls staðar alltaf hægt að komast að þjónustu eins og salernisaðstöðu eða öðru slíku en mér finnst menn kannski hafa farið fullgeyst í yfirlýsingum um þetta og tekið það býsna langt vegna þess að ýmislegt hefur nú verið gert. Það eru mikil gæði í ferðaþjónustunni og ferðaþjónustuaðilar sjálfir sem selja ferðirnar vita alveg hvaða kröfur á að gera um þjónustu fyrir það fólk sem þeir koma með inn á svæðin. Það verður líka að treysta svolítið ferðaþjónustuaðilanum og þessum markaði sjálfum fyrir verkefninu. En þetta var útúrdúr.

Mig langaði að spyrja meira út í þetta markaðsátak vegna þess að auðvitað varð fólki svolítið brugðið að sjá orðalagið í fjárlagafrumvarpinu þar sem beinlínis er sagt um markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu að lagt sé til að fellt verði niður 200 millj. kr. tímabundið framlag sem veitt var í tvö ár. Það er svo sem útskýrt að þetta verði út næsta ár en það má ætla að þar með sé málið bara búið, þ.e. þessu sé lokið og verði ekki haldið áfram með verkefnið. Það gleður mig að heyra ráðherra segja að svo sé ekki vegna þess að ég er sammála því að þessir markaðssóknarfjármunir skila sér mjög vel og þeir skila sér í því að við getum nýtt þá til þess að ná okkar markmiðum. Við nýttum þá fyrst til að reyna að stöðva þá þróun sem varð hér eftir Eyjafjallajökulsgosið og fá yfir höfuð ferðamenn til landsins. Síðan þegar það var komið þá gátum við notað þetta fé til að reyna að fjölga þeim ferðamönnum sem komu utan háannatíma, þ.e. utan sumartímans. Núna er fókusinn á það að reyna að fjölga þeim og dreifa þeim betur um landið. Ég vonast til þess að menn geti hugsanlega nýtt þetta fé og þessa markaðssókn sem horft er til á landsbyggðinni sérstaklega inn í þá vinnu að reyna að fá flugfélög til að nýta betur flugvelli á t.d. Norðurlandi og Austurlandi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins um þetta, í fyrsta lagi: Er einhver stefnumótunarvinna hafin varðandi markaðssóknina og framhald hennar? Ég held að það skipti máli að sem fyrst liggi fyrir hvort og þá hvernig menn ætla að halda áfram með þetta af því að fyrirsjáanleikinn skiptir máli. Síðan langar mig í öðru lagi að spyrja ráðherra hvort hún sé í einhverri samvinnu við innanríkisráðherrann um að hefja einhvers konar markaðssókn á flugvöllunum á Norðurlandi og Austurlandi.