145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:58]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurningarnar frá hv. þingmanni. Tillaga okkar um 85 millj. kr. til NPA gerir ráð fyrir því að við getum staðið við þá samninga sem við höfum gert. Það hefur komið fram ósk frá sveitarfélögunum um að kostnaðarþátttaka ríkisins verði hækkuð úr 20 í 30%. Við teljum hins vegar mjög mikilvægt í ljósi þess að hér er um tilraunaverkefni að ræða að við einfaldlega ljúkum við það verkefni áður en við gerum breytingar á því hvernig kostnaðarskiptingin hefur verið á milli ríkis og sveitarfélaga. Við leggjum hins vegar áherslu á að vinna þetta áfram í góðu samstarfi innan verkefnisstjórnar NPA og líka með sveitarfélögunum, sem bera hitann og þungann af framkvæmd verkefnisins.

Varðandi bifreiðamálin er það alls ekki svo að við teljum að verið sé að kasta tillögum. Þetta eru mjög góðar tillögur og við höfum verið að fara yfir það hvernig við getum komið til móts við þessar hugmyndir. Hins vegar er alveg ljóst, eins og kom fram í ræðu minni, að forgangsmálin núna sem snúa að fjárveitingum innan félags- og húsnæðismálahlutans eru annars vegar húsnæðismálin, sem ég tel að muni einmitt koma sérstaklega vel þeim sem eru með lágar tekjur, eru lífeyrisþegar, huga að þeim, og síðan hækkun almennt á bótum í almannatryggingum og atvinnuleysisbótakerfinu.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á vaxtabæturnar. Það er náttúrlega ljóst að skuldastaða heimilanna hefur batnað verulega, m.a. vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til í tengslum við skuldaleiðréttinguna, þannig að þegar skuldirnar lækka er kannski ekkert óeðlilegt við það að þar af leiðandi lækki vaxtabæturnar líka. En ég hvet fjárlaganefnd til að fara vel yfir forsendurnar varðandi vaxtabæturnar og líka það sem kemur fram í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við húsnæðismálin og vaxtabætur.

Varðandi almenna leigumarkaðinn þekkir hv. þingmaður ágætlega til frumvarpsins um breytingar (Forseti hringir.) á stuðningi við leigjendur og hvaða áhrif það getur haft á almenna leigumarkaðinn (Forseti hringir.) og að sama skapi má finna tillögu um skattalækkun vegna leigutekna í bandormi fjármálaráðherra með tekjuhliðinni.