145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

tekjutenging vaxta- og barnabóta.

[15:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér finnst eins og hér sé spurt: Þegar öllum gengur betur og laun hækka og kaupmáttur vex, eignastaðan lagast og skuldir lækka, hvers vegna hækkum við þá ekki líka bæturnar?

Við gerum ekki neinar kerfisbreytingar í vaxtabótakerfinu. Við erum með sömu réttindi milli ára en útgjöld ríkisins vegna vaxtabóta lækka vegna þess að staða fólks er að lagast.

Þegar menn horfa á húsnæðisstuðning er ekki hægt að einblína á vaxtabæturnar. Við gefum núna hálfan milljarð í skattafslátt í hverjum mánuði til þeirra sem taka út séreignarsparnað og ráðstafa inn á húsnæðislán, hálfan milljarð á mánuði. Það eru aðrir 6 milljarðar á ári í húsnæðisstuðning. Það er fyrir utan 20 milljarðana sem eru í fjárlögunum og fara til þess að loka skuldaleiðréttingunni.

Varðandi barnabætur erum við að hækka heildarfjárhæðina um 3% á milli ára og við höfum verið nokkuð stöðugt með 10 milljarða í barnabætur. Síðustu breytingar sem við gerðum á réttindum í barnabótakerfinu voru til þess að taka rétt frá þeim sem eru í bestri stöðu og færa til þeirra sem eru með lægstu launin. Það voru síðustu breytingar þessarar ríkisstjórnar, að nota það sem við ætlum að setja í barnabætur í meira mæli til þeirra sem eru í lægri þrepum launastigans.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst það aldrei vera sjálfstætt markmið, segjum til dæmis í vaxtabótakerfinu, að koma alltaf út 10 milljörðum. Aðalatriðið hlýtur að vera að skoða réttindin og ef staða fólks fer batnandi er ekki nema eðlilegt að eitthvað minna leggist á ríkið við að létta undir með fólki. Í því dæmi sem hér var nefnt er um það að ræða að þegar fólk er komið nokkuð yfir meðallaun dregur verulega úr réttindunum. Mér finnst það ekki mjög óeðlilegt.