145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

lífeyrisgreiðslur og lágmarkslaun.

[15:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni höfum gagnrýnt harðlega að hæstv. ríkisstjórn hafi, undir forustu framsóknarmanna, tekið þá ákvörðun að halda lífeyrisgreiðslum undir lágmarkslaunum í landinu. Um 1% launþega er á lágmarkslaunum en þeir eiga flestir möguleika á að vinna sig upp eftir launastiganum. Þann möguleika eiga öryrkjar og ellilífeyrisþegar hins vegar ekki.

Í nýgerðum kjarasamningum var lagt til grundvallar að 300 þús. kr. séu sú fjárhæð sem launafólki er nauðsynleg til mannsæmandi framfærslu. Hið sama hlýtur þá að gilda um öryrkja, aldraða og þá sem reiða sig á lífeyri almannatrygginga til að sjá sér farborða.

Ég hélt að framsóknarmenn væru sammála þessu. Þann 30. ágúst sl. heyrði ég hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra segja í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni að framsóknarmenn hefðu samþykkt fyrir sitt leyti að bætur almannatrygginga ættu ekki að vera lægri en lágmarkslaun. Nú hefur fjárlagafrumvarpið verið lagt fram, helsta stefnuplagg hæstv. ríkisstjórnar, og þar er lagt til að lífeyrisþegar fái ekki viðlíka kjarabót og þeir sem eru á lægstu launatöxtunum.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort framsóknarmenn muni styðja það frumvarp Samfylkingarinnar sem tekið verður til umræðu hér síðar í dag, um breytingu á lögum um almannatryggingar og hækkun lífeyris í 300 þús. kr. Hafa framsóknarmenn ef til vill skipt um skoðun hvað þetta réttlætismál varðar? Hefur hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra skipt um skoðun frá því að hún tjáði sig um málið 30. ágúst sl. og er einhugur í hæstv. ríkisstjórn um að halda öryrkjum og ellilífeyrisþegum undir lágmarkslaunum í landinu?