145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

staða kvenna á vinnumarkaði.

21. mál
[15:39]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög beiðni um skýrslu til félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu kvenna á vinnumarkaði og ég vil hrósa flutningsmönnum fyrir framtakið. Undanfarin ár hafa þó jaðarstaddar konur með öflugri hætti kvatt sér hljóðs og krafist þess að hafa rödd og pláss í kynjajafnréttisbaráttunni. Er til dæmis um að ræða hinsegin konur, konur af erlendum uppruna og fatlaðar konur. Eigum við sem þessum hópum tilheyrum það sameiginlegt að upplifa margþætta mismunun sem rannsóknir sýna að getur haft margfeldisáhrif þegar kemur að misrétti, t.d. á vinnumarkaði. Ég saknaði þess að umrædd skýrslubeiðni tæki ekki sterkar á samtvinnun mismununarbreyta en mikilvægt er fyrir stjórnvöld að vita hvernig margþætt mismunun hefur áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Við hljótum öll að vera sammála um nauðsyn þess að ef á annað borð er farið út í gerð svo viðamikillar skýrslu gleymist engar konur.

Ég greiði þessari skýrslubeiðni samt atkvæði mitt, því að hún er mikilvæg, en í þeirri von að þessar athugasemdir verði teknar til skoðunar við meðferð málsins.