145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar þar sem lagt er til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna í samræmi við kjarasamninga og verði fyrir vikið kominn upp í 300 þús. kr. árið 2018. Ég tek heils hugar undir þetta markmið og held að hér sé um að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir elli- og örorkulífeyrisþega en einnig sanngirnismál og réttlætismál um það hvernig samfélag við viljum byggja. Að sjálfsögðu eiga elli- og örorkulífeyrisþegar ekki að búa við lakari kjör en þeir sem hafa lægstu launin. Líkt og rakið er í greinargerð liggur alveg fyrir að stór hópur öryrkja og aldraðra býr ekki bara við fátækt heldur við langtímafátækt. Hjá mörgum er þetta ekki eitthvert tímabundið ástand heldur ástand sem varir mjög lengi og getur þess vegna varað út ævina hjá þeim sem fæðast með tilteknar skerðingar eða fá langvinna sjúkdóma ungir að árum.

Það liggur líka fyrir, eins og rakið er í greinargerðinni, að þeim öryrkjum sem búa við verulegan skort á efnislegum gæðum fer fjölgandi. Þeim fór líka fjölgandi á árunum 2013–2014. Þetta er hópur sem er að fjölga í og það er að gerast núna þegar Ísland er að rétta úr kútnum eftir efnahagshrunið. Það er alveg galið að akkúrat á árunum þegar hagur flestra á Íslandi er að vænkast aukist skortur á efnislegum gæðum í þessum hópi.

Þá liggur líka fyrir að það er að fjölga í hópi þeirra sem segjast hafa þurft að fresta læknisheimsóknum, í hópi þeirra sem hafa tíðar fjárhagsáhyggjur eða hafa þurft að fresta nauðsynlegum lyfjakaupum. Við erum því ekki að tala um að fólk sé að neita sér um efnisleg gæði í formi nauðsynja- og lúxusvara sem kannski má segja að hægt sé að neita sér um, a.m.k. til einhvers tíma, fresta kaupum á nýjum raftækjum eða einhverju álíka, heldur erum við hér að tala um lífsnauðsynlega hluti eins og lyf og það að komast til læknis.

Staðan er nú sú að rétt tæplega 11 þús. lífeyrisþegar ná ekki viðmiðum um lágmarkslífeyri og fá þess vegna sérstaka uppbót á framfærslu sína og mig langar að gera það að umtalsefni. Líkt og ég sagði tek ég heils hugar undir það að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga eigi að fylgja þróun um lágmarkslaun og hækka upp í 300 þús. kr. Líkt og landsmenn vita, örugglega flestir ef ekki allir sem og við sem hér erum inni ættum að vita, er almannatryggingakerfið flókið, sumir segja stagbætt þar sem hvað rekst á annars horn. Það er mjög mikilvægt að við lítum ekki bara til þess að hækka bæturnar, heldur þarf líka að hugsa fyrir því að hækka ýmis krónutöluviðmið sem eru í lögum eða reglugerðum um almannatryggingar.

Þar komum við til að mynda að hinni sérstöku uppbót til framfærslu, sem oft er kölluð framfærsluuppbót, sem og frekari uppbótum sem eru annar flokkur. Þær eru til dæmis greiddar þeim sem hafa mikinn lyfjakostnað. Þessar greiðslur eru allar miðaðar við ákveðna krónutölu og ef ekki eru gerðar breytingar á þessum krónutöluviðmiðum jafnframt því sem bæturnar eru hækkaðar er hætt við því að raunhækkun greiðslna til tekjulægstu lífeyrisþeganna sérstaklega verði litlar eða í það minnsta minni en þær kjarabætur sem flutningsmenn þessa ágæta frumvarps vilja ná fram. Það má hreinlega sjá það í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 þar sem lögð er til nokkur hækkun á almannatryggingunum, þó ekki jafn mikil og í þessu frumvarpi. Í töflu á bls. 376 sést að sú upphæð sem fer í að greiða frekari upphæðir hríðfellur, um heil 40,7%. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sagði reyndar í umræðu um fjárlagafrumvarpið að þessi tala væri eitthvað skrýtin eða vitlaus og vísaði því til hv. fjárlaganefndar að skoða þetta frekar, en ef þessi krónutöluviðmið verða ekki hækkuð fara talsvert margir lífeyrisþegar upp úr því hámarki sem þar er sett og þá lækka þessar greiðslur vitanlega á móti. Þetta þarf að hafa í huga því að endanleg útkoma hlýtur að vera sú að við viljum að ráðstöfunartekjur fólks hækki.

Mig langar líka að nefna í þessu sambandi einn hóp lífeyrisþega sem er sá hópur sem fær skertar greiðslur vegna búsetu. Það eru þeir sem ekki hafa náð að búa hér í 40 ár meðan þeir voru á aldrinum 16–67 ára. Þessi hópur býr við hvað erfiðastar fjárhagsaðstæður og það þarf líka að huga að honum. Þetta frumvarp tekur ekki til hans en þetta er hópur sem við þurfum alltaf að hafa í huga.

Af því að erum að ræða ýmislegt sem varðar lífeyrisþega langar mig líka að taka undir áhyggjur hv. þm. Freyju Haraldsdóttur um starfsgetumat. Ekki hefur verið mikill áhugi á að ráða fólk með skerta starfsgetu til starfa. Ef við breytum almannatryggingakerfinu í þá átt að taka af fólki bætur og segja að það verði að vinna fyrir að minnsta kosti hluta af framfærslu sinni hef ég miklar áhyggjur af vinnumarkaðnum. Þó að auðvitað sé gott að fólk stundi atvinnu og vinni eins og það getur getur það verið ansi erfitt ef störfin eru ekki til eða ef enginn vill ráða mann í vinnu. Mig langaði að nefna þetta í tengslum við þessa umræðu. Þó að þetta séu allt hlutir sem við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum um lífeyristryggingakerfið breytir það engan veginn því að líkt og ég sagði í upphafi máls míns tek ég heils hugar undir það sem hér er lagt til og tel mikið sanngirnismál að elli- og örorkulífeyrir fylgi þróun lágmarkslauna. Vegna þess hvernig almannatryggingakerfið er þurfum við þó alltaf að hafa í huga hvernig lokaútkoman verður. Ég þori að fullyrða að það er það sem vakir fyrir flutningsmönnum frumvarpsins.

Fyrr í umræðunni komu fram vangaveltur um hvað þetta frumvarp mundi kosta. Auðvitað kostar að halda úti skikkanlegu almannatryggingakerfi. Ein leið til þess að halda þeim sem þurfa að reiða sig á almannatryggingakerfið í fátækt er að ríkissjóður afli ekki þeirra tekna sem til þarf til að fjármagna eitt stykki velferðarkerfi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er nákvæmlega það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera með því að lækka skatta á hálaunafólk eða stöndugar atvinnugreinar eins og stórútgerðina og hefur fyrir vikið ekki efni á því að bæta stöðu þeirra verst settu, þeirra sem verða að treysta á samfélagið sér til framfærslu. Það er frekar ódýrt, finnst mér, að segja: Ja, þetta kostar of mikið, en segja svo á sama tíma: Við ætlum hins vegar ekki að afla neinna peninga.

Auðvitað þarf að skoða þetta í samhengi og sníða kerfið þannig að það sé sanngjarnt, að hér ríki jöfnuður og að þeir sem einhverra hluta vegna geta ekki framfleytt sér sjálfir hafi stuðning samfélagsins til að fá afkomu sína tryggða. Ég held satt að segja að langflestir Íslendingar vilji þannig samfélag og þá er það auðvitað okkar sem hér störfum að búa til þannig kerfi að þetta sé hægt.

Þess vegna vona ég að við samþykkjum að láta elli- og örorkulífeyrinn fylgja lágmarkslaunum í samræmi við nýgerða kjarasamninga og að við förum svo í það verkefni að afla peninganna til að hér geti verið velferðarsamfélag sem stendur undir nafni.