145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[17:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hér að spyrja hv. þingmann en það er sjálfsagt að svara honum þó að mér þyki miður að hann svari ekki þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Það er svolítið merkilegt.

Hv. þingmaður var hérna á sumarþinginu þegar ríkisstjórnin tók við og veit hvað var það fyrsta sem hún gerði. Það var að fara í þær skerðingar sem hann nefndi. Þetta veit hv. þingmaður en ákveður samt sem áður að fara með sömu möntruna.

Hv. þingmaður talaði hins vegar um að aftur ætti að leggja auðlegðarskattinn á, sem Samfylkingin lofaði að gera ekki. Það getur hver sem er farið og talað við Google „frænda“ og flett upp viðtali við síðasta fjármálaráðherra Samfylkingarinnar þar sem hann talaði um að skatturinn yrði ekki endurnýjaður. En hingað kemur hv. þingmaður og segir að hann vilji svíkja það kosningaloforð.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það hans vilji að fara gegn því sem lofað var varðandi auðlegðarskattinn? Auðlegðarskatturinn hefur verið kallaður ekknaskattur og ekki að ástæðulausu, hann kom sérstaklega illa niður á þeim hópi. Hér eru fyrirspurnir sem ég lagði meðal annars fram sem sýna hvaða fólk borgaði hann, það var eldra fólk með lágar tekjur. Ef menn ætla að ná í ríka fólkið þá sleppur það eins og svo oft áður.

Ég ætla líka að spyrja af því að hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar fór yfir það að hann vildi setja sérstakan skatt eða gjald fyrir notkun á sameiginlegum auðlindum og nefndi sérstaklega ferðaþjónustu og sjávarútveg í því samhengi til að fjármagna þessi útgjöld sem væru þá 30 til 40 milljarðar. Er hv. þingmaður ekki sammála því?

Það eru þessar tvær spurningar: Vill hann svíkja kosningaloforð Samfylkingarinnar um auðlegðarskattinn? Er hann sammála formanni sínum eða eru deilur í flokknum um það hvernig eigi að fjármagna þessa 30–40 milljarða?