145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til að skoða hvernig við mælum fjárfestingu því að kannski tekur hún að einhverju leyti mið af atvinnustefnu eins og hún hefur verið. Við vitum hins vegar að atvinnuuppbygging og atvinnustefna eru að breytast þannig að ég held að það sé áhugavert að skoða að minnsta kosti hvernig þessir hlutir eru mældir.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra segi að það kunni að vera ástæða til að bæta við opinbera fjárfestingu. Við sjáum að þörfin er víða brýn. Ég nefni t.d. samgöngurnar. Við sjáum mjög magra samgönguáætlun boðaða ef marka má fjárlagafrumvarpið. Þar á þörfin eftir að verða mikil svo dæmi sé tekið og þótt landsframleiðslan vaxi þá er framlagið samt lágt í sögulegu samhengi.

Hitt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um eru tollalækkanirnar, kjarabæturnar fyrir heimilin. Í ljósi þeirrar gagnrýni sem hér kom fram á síðasta vetri þegar við ræddum annars vegar lækkun á vissum vörum hvað varðar virðisaukaskatt og hækkun á öðrum — þær fregnir sem við höfum haft af því hvernig þær lækkanir og hækkanir hafa skilað sér út í verðlagið koma fyrst og fremst í gegnum verðlagseftirlit (Forseti hringir.) sjálfstæðra aðila því að hið opinbera hefur sjálft ekki haft eftirlit með því hvernig (Forseti hringir.) þetta hefur skilað sér — er ekki ástæða til þess fyrir hið opinbera fylgist betur með (Forseti hringir.) verðlagsþróun í kjölfar ákvarðana stjórnvalda á hverjum tíma?