145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er vissulega ánægjulegt fyrir okkur öll, held ég, hversu mikill uppgangur er í hagkerfinu. Í fylgigögnum og skýringum sem við höfum fengið við kynningu fjárlagafrumvarpsins og þess frumvarps sem við ræðum nú, kemur fram að allar áætlanir eru að breytast og þær eru allar að breytast upp á við. Við munum það nú helst hér áður að þær hafi breyst í hina áttina, svoleiðis að þetta hlýtur að vera mikið fagnaðarefni fyrir okkur öll. Ég er ekki, eins og þeir sem hlusta á umræðurnar hafa orðið varir við, ein um það að vara við að ganga hægt um gleðinnar dyr. Við Íslendingar höfum einmitt ekki kunnað fótum okkar forráð við slíkar aðstæður.

Mér heyrist stundum á hæstv. fjármálaráðherra að helsta hættan í þessu sé — og sé að gerast í hagkerfinu — að hér verði ofþensla og allt fari upp í bólu á ný, og það felist í því að laun í landinu séu of há eða þau hækki of mikið. Ég er þessu algjörlega ósammála. Ég held að okkar stærsta vandamál sé kannski í rauninni hvað launin í landinu eru lág og þá ekki síst þau lægstu og hve kostnaðurinn við að vera til er mikill. Stór hluti kökunnar fer til stóru fyrirtækjanna, stórbokkanna sem ég ætla að leyfa mér að kalla svo, og of lítill hluti fer til launafólks og ekki er gert nóg til að styðja við litlu fyrirtækin. Þetta ástand kallar á kerfisbreytingu. Við þurfum að breyta því hvernig við skiptum gæðum landsins á milli þeirra sem eiga og hinna sem vinna og þiggja laun.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór vel í gegnum það hvernig hagfræðingar um allan heim benda á að brauðmolakenningin svokallaða, sem var mjög í tísku á árum áður, virkar ekki. Þess vegna þurfum við að bregðast við því. Við erum lítið land og við erum lítið hagkerfi og við eigum að geta gert það frekar, kannski auðveldar en margur annar því okkar skipi verður fyrr snúið en stórum skipum. Ef við gerum það ekki, virðulegi forseti, þá getum við átt á hættu að unga fólkið vilji bara verja sumarfríinu hér heima en búa annars staðar og ala börnin sín upp í öðrum löndum þar sem aðstæður eru betri. Þetta er hin stóra áskorun stjórnmálanna í dag og á næstu árum að mínu mati.

Ég ætla að stikla á nokkrum atriðum í frumvarpinu því að farið er í margt þar, ég kem ekki að öllu en stikla á nokkrum atriðum.

Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Skattþrepum vegna tekjuskatts einstaklinga verði fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum ásamt því sem tekjumörkum verði breytt. Við það mun skattbyrðin minnka og ráðstöfunartekjur einstaklinga hækka.“

Virðulegi forseti. Ég er á móti fækkun skattþrepanna vegna þess að það dregur úr tekjujöfnunarmætti skattkerfisins sem ég tel vera af hinu góða og ég tel vera nauðsynlegt. Ég fagnaði því þegar því fyrirkomulagi var komið á og ég harma það að verið sé að taka það í burtu. Menn segja að þrepaskiptur skattur sé óskilvirkur. Mér skilst að það þýði þá það, eða menn eiga við það, að hann skili sér ekki nógu vel vegna þess að fólk reyni að færa sig á milli skattþrepa, draga undan skatti til að komast ekki í hærra þrep og þar fram eftir götunum. Við þurfum þá að búa þannig um og beina sérstökum aðgerðum til að koma í veg fyrir skattsvik. Ég vil gjarnan skipta á óskilvirkum þrepaskiptum skatti og flötum skatti eða einu skattþrepi sem hefur minni möguleika á að jafna tekjur í landinu en hin fyrri. Við erum alltaf að skipta á einu eða öðru. Það gerum við þegar við verslum, þá látum við peninga og fáum vörur í staðinn. Þarna met ég það einfaldlega meira, þ.e. tekjujöfnunarhlutverk þrepaskipts skattkerfis en skilvirkara skattkerfi sem menn kalla svo.

Lagt er til að „frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum manns af íbúðarhúsnæði verði hækkað úr 30% í 50%.“ Ég held að tillaga okkar samfylkingarmanna um leigutekjur af einni íbúð sem er leigð út virkaði betur, en þetta má svo sem ágætt vera. Ég vil nú benda á þá tillögu jafnaðarmanna sem ég held að mundi skila sér betur.

Síðan segir í frumvarpinu:

„Tollar verði felldir niður af öðrum vöruflokkum en landbúnaðarafurðum og tilteknum matvælum í tveimur skrefum, …“.

Það má svo sem fagna því að afnema eigi skatta af fatnaði, en þetta eru í rauninni ekki miklir peningar. Miðað við það sem börnin mín segja mér, sem er reyndar fullorðið fólk, þá er verðmunur svo mikill á fatnaði hér á landi og í útlöndum að það verður varla þessum tollum um kennt. Ég er hrædd um að vandinn liggi ekki alveg þar, ég er hrædd um að álagning á þær vörur hér á landi sé óeðlilega há. Ég óttast að þessi lækkun sem verður muni ekki skila sér til neytenda. Ég er ekki hrifin af ríkisreknu verðlagseftirliti. Á hinn bóginn hlýtur að verða að ganga eftir því að þessi lækkun, sem ekki er mikil — 1.600 hundruð krónur held ég að hafi verið tekið sem dæmi af gallabuxum einhvers staðar í frumvarpinu — það eru ekki miklir peningar. Þess utan tel ég að huga verði líka að því hvenær tollalækkunin tekur gildi. Ég heyrði kunnáttumann um þau atriði tala einmitt um þetta í útvarpinu um daginn, hann lagðist eindregið gegn því að þetta yrði sett á um áramótin vegna þess að þá eru útsölur akkúrat að byrja og erfitt yrði að mæla þetta. Nú segja þeir örugglega sem vinna hjá ríkinu að það ætti auðvitað að vera um áramótin því að ómögulegt sé að gera svona breytingar í apríl eða maí. En ég er ekkert svo viss um það. Við þurfum að huga að því að breytingar af þessu tagi séu ekki endilega settar á akkúrat á þeim tíma sem erfiðast verður að mæla hvort þær skili sér til neytenda eða ekki.

Frumvarpið boðar „breytingar á álagningu vörugjalda á bílaleigubifreiðar sem komi til framkvæmda í tveimur áföngum.“ Ég hefði talið að það ætti að gerast í einum áfanga. Sú atvinnugrein ræður alveg fullkomlega við það. Hæstv. ráðherra varaði við því að í nefndastörfum kæmu þeir sem reka bílaleigur og segðu að þeir gætu ekki orðið af þessum styrk sem kalla má svo og ekkert annað. Ég hef nú sjaldan umgengist þá sem reka fyrirtæki á einhverjum styrkjum fallast á að missa slíka styrki. Ég held því að þetta ætti bara að gerast í einum áfanga. Ég vil enn fremur fagna því sem kom fram í ræðu ráðherrans að hann telur að til lengri tíma ætti frekar að lækka vörugjöld af öllum bifreiðum í landinu. Ég tel að nær væri að gera það þá strax og láta af þeim hugmyndum að gera þetta í tvennu lagi.

Síðan langar mig aðeins að nefna framlenginguna á ákvæði laga um tryggingagjald sem kveður á um hvað mikið á að renna í starfsendurhæfingarsjóði. Það var mikið rætt hér í fyrra vegna þess að þetta eru peningar sem yrðu þá til þess að þeir sem ekki eru í atvinnulífinu geti notið þess sem starfsendurhæfingarsjóðir standa fyrir eins og aðrir. Fram kemur í athugasemdum að samkomulag hafi orðið á árinu að greiða 650 millj. kr. beint af fjárlögum. Það er tæplega helmingun á því sem ella hefði átt að fara í sjóðina. Ef þetta samkomulag dugar til að fullnægja þörfinni þá er það svo sem gott mál, en ég ætla að fylgjast sérstaklega með því í nefndinni því að það er mjög áríðandi að skilja ekki þennan hóp eftir út undan.

Mig langar að lokum að koma aðeins inn á tryggingagjaldið sem slíkt. Nú er það svo að skattar í landinu leggjast náttúrlega mest á einstaklinga. Einstaklingar borga virðisaukaskattinn, þaðan koma mestu tekjur. Næst þar á eftir kemur tekjuskattur einstaklinga. Einstaklingar borga tolla og í rauninni leggst mest af sköttum landsins á heimilin í landinu. Tryggingagjaldið er hins vegar stærsti skattstofn fyrirtækjanna og núverandi ríkisstjórn — ég hef reyndar undrað mig á því allt þetta kjörtímabil, þetta er þá í þriðja skiptið sem ég undra mig á því, að ríkisstjórnin lækki þennan skatt á fyrirtækin ekki meira en raun ber vitni. Tryggingagjaldið leggst þyngst á mannfrek fyrirtæki, fyrirtæki þar sem fjárfesting er tiltölulega lítil. Þess vegna skiptir það verulegu máli að ýta undir þau fyrirtæki. Ég ætla að nefna eitt í framhjáhlaupi vegna þess að við höfum talað um það hér undanfarið að ferðaþjónustan sé orðin þriðji máttarstólpinn undir atvinnuvegi í landinu. Nú er það orðið svo að ýmis konar þjónusta, sem er þá þekkingariðnaðurinn, er komin upp í tveggja stafa tölu þegar talað er um útflutningstekjur þjóðarinnar og það eru einmitt þau fyrirtæki sem mundu hagnast við lækkun tryggingagjalds, það mundi koma þeim best, og þetta eru einmitt fyrirtækin sem við þurfum að ýta undir og efla hér í landinu. Líka vegna þess að þetta eru fyrirtækin sem greiða hæstu launin, þar sem háskólagengið fólk fær vinnu. Svo er annað sem kemur fram í gögnum sem fylgja frumvarpinu og það er að minnst dregur úr atvinnuleysi háskólamenntaðs fólks á landinu. Dregið hefur mjög úr atvinnuleysi í landinu en minnst úr atvinnuleysi háskólamenntaðs fólks og það er vont að sjá.

Það eru stórfyrirtækin hverju nafni sem þau nefnast sem að eiga minnst undir tryggingagjaldinu, ef ég má orða það þannig, þ.e. að fjárfestingin er svo mikil hjá þeim að tryggingagjaldið vegur ekki jafn mikið og hjá litlu fyrirtækjunum. Og enn og aftur ráða þau ferðinni. Það eru sjávarútvegsfyrirtækin, það eru stórverslanir, það er stóriðja og það eru raforkufyrirtæki. Því miður er það svo, virðulegi forseti, að núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hjálpar og styður við þá sem eru stórir og sterkir en lætur sér minna annt um þá sem (Forseti hringir.) eru litlir og veikburða.