145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kann hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni litlar þakkir fyrir lokaorð hans því ég ætlaði einmitt að fara með þau hér aftur. Ég fór reyndar með þau á íslensku á sínum tíma og mun gera það hér og nú því þetta er það sem ég hef einmitt velt fyrir mér í þessu máli frá upphafi. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra svaraði þessu raunar í ræðu sinni þó að ég sé ekki sammála svarinu. Ég spurði: Ef verkfærið er ekki bilað, af hverju þá að fara að gera við það sérstaklega? Það hefur að minnsta kosti gefist mér ágætlega að eyða ekki orku minni og kröftum í að gera við það sem ekki er bilað. Ráðherra sagði: Það er af því að ég vil að verkfærið virki enn betur en það gerir, en það virkar samt mjög vel. Áhyggjurnar sem ég hef af málinu eru að ef við förum að gera við eitthvað sem virkar samt, þá getum við með viðgerðum okkar jafnvel valdið ákveðnum skaða. Þær áhyggjur hafa ekki dvínað frá því að fyrst var mælt fyrir þessu máli á síðasta þingi.

Ég vil byrja á að segja að það hefði verið gott að reyna að ná ákveðinni sátt hér um málefni þróunarsamvinnunnar og þessi tillaga veldur manni því ákveðnum vonbrigðum Ég þekki sjálf ekki þá sögu sem er á bak við síðustu lagabreytingar um þróunarsamvinnu nema af afspurn en öllum ber þó saman um að menn hafi lagt ýmislegt á sig þá til að reyna að ná þverpólitískri sátt um fyrirkomulag málaflokksins og niðurstaðan voru þau lög og það stofnanafyrirkomulag sem við búum við núna. Um það náðist góð sátt á þingi og mér finnst leitt ef við getum ekki náð sátt um þessi mikilvægu mál á Alþingi nú.

Við vitum líka að þessi hugmynd er ekki að koma fram í fyrsta sinn núna, við þekkjum söguna á bak við það. Þetta hefur nokkrum sinnum verið lagt til og ráðherrar hafa brugðist við því með ólíkum hætti. Þegar Davíð Oddsson gegndi embætti utanríkisráðherra undirritaði hann reglugerð árið 2005 þar sem öll þróunarsamvinna, marghliða og tvíhliða, var færð úr ráðuneytinu yfir til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Sagan sem við höfum fengið að heyra í utanríkismálanefnd er að ráðuneytið hafi síðan neitað að framkvæma þá reglugerð. Ég er enn að velta því fyrir mér hvernig það hefur farið fram. Þetta var líka til umræðu í tíð Valgerðar Sverrisdóttur og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem utanríkisráðherra en það var í tíð þeirrar síðarnefndu sem núverandi fyrirkomulag og lög voru samþykkt og því má sjá að þetta er gömul umræða og ný.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér og mér finnst enn hafa ekki verið svarað í þessari umræðu varðar það sem ég kom að áðan í andsvari mínu við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þróunarsamvinnustofnun er eina fagstofnun utanríkisráðuneytisins og hún fer með þróunarfé, um það bil 40% þróunarfjárins ef ég man rétt eða kannski helming. Ráðuneytið hefur hins vegar gegnt hlutverki eftirlitsaðila gagnvart þessari stofnun sem skiptir nú ekki litlu máli þegar um er að ræða mikla fjármuni sem nýttir eru í verkefni sem fara ekki fram hér undir nefinu á okkur þingmönnum t.d. heldur í fjarlægum löndum. Ráðuneytið hefur þar haft mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna. Í allri þessari vinnu hefur komið fram bæði hjá hæstv. ráðherra, starfsfólki hans í ráðuneytinu og Þróunarsamvinnustofnun að menn eru ánægðir með árangurinn. Það er verið að fylgjast með þessum peningum, það er verið að meta árangurinn af þeim og árangur er ekki metinn út frá töldum hausum eða töldum brunnum svo dæmi sé tekið. Það er ekki bara sagt: Það er búið að setja fjármuni í þetta mál og það eru komnir tólf brunnar, heldur er spurt dýpri spurninga. Það er spurt: Hefur sú vinna sem við höfum lagt í við að byggja þessa brunna komið í veg fyrir að ákveðnir sjúkdómar geisi? Hefur hún bætt heilbrigði fólks á svæðinu? Það sem mér fannst líka áhugavert þegar við vorum að kynna okkur þessi mál var að það hefur verið hætt við verkefni sem ekki voru talin skila nægum árangri. Það er auðvitað eilíf spurning þegar við erum að fást við fjármuni sem varið er til verkefna sem við getum ekki fylgst með daglega: Hvernig nýtast peningarnir og hvernig metum við árangurinn? Mér hefur fundist svarið vera nokkuð sannfærandi og ég ítreka það sem ég sagði í byrjun: Ég sé ekki annað en verkfærið virki sem skyldi.

Eins og hér hefur komið fram í umræðum þá var gerð ákveðin úttekt, ekki á stofnuninni sem slíkri heldur úttekt á Íslandi og á laga- og stofnanarammanum. Jafningjarýni DAC, sem er þróunarsamvinnunefnd OECD, er áætluð á Íslandi og ÞSSÍ á árinu 2016 og eins og kom fram áðan í samtali mínu við hæstv. ráðherra þá höfum við í minni hlutanum lagt áherslu á að rétt sé, í ljósi þess að þessi lög sem við störfum núna eftir eru ekki gömul, frá 2008, og að í úttektinni sem gerð var á Íslandi voru ekki gerðar beinar athugasemdir við lagarammann, að við bíðum eftir jafningjarýninni þannig að við fáum hlutlaust mat á því hvernig þetta verkfæri hefur virkað til að ná þeim markmiðum sem við viljum ná.

Ég held satt að segja að þegar litið er til þróunarsamvinnu þá ætti það að vera stærra áhyggjuefni að Alþingi Íslendinga hefur ekki sett metnaðarfullt markmið um að styðja miklu betur við bakið á þessum málaflokki Það er meira að segja búið að skera niður tillögu hæstv. ráðherra frá því í vor, tillögu sem kom fram fyrir tveimur, þremur mánuðum inn í þingið, en í henni var gert ráð fyrir 0,23% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu. Þegar við sjáum síðan fjárlagafrumvarp ársins þá er ekki einu sinni staðið undir 0,23% heldur er bara óbreytt ástand þegar kemur að vergri landsframleiðslu og gert ráð fyrir 0,21%. Ég held hreinlega að þegar við sjáum næstu úttekt verði aðaláherslan lögð á það að Ísland hafi því miður ekki náð neinum árangri í að bæta framlög til þróunarsamvinnu. Það held ég að sé stóri punkturinn, gagnrýnispunkturinn á frammistöðu Íslands í þessum málum, ekki það að ekki sé verið að verja þessum fjármunum vel og vinna vel að þróunarsamvinnu. Mér finnst það dapurlegt, sérstaklega þegar við skoðum stöðuna annars staðar á Norðurlöndum og mjög víða í Evrópu þar sem lagt er virkilega vel í þennan málaflokk. Meira að segja á krepputímum ákvað breska ríkisstjórnin að ná því 0,7% markmiði sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett, þar hefur náðst að skapa þverpólitíska samstöðu þannig að þróunarsamvinna er ekkert einkamál einhvers eins flokks. Hún á ekki að vera það. Hún á að vera þverpólitískt markmið, bæði fyrirkomulag hennar og fjárframlög. Mér finnst stundum, ég verð bara að fá að segja það, að þegar við ræðum um stofnanafyrirkomulag þróunarsamvinnunnar séum við að ræða einhvern ramma en horfum fram hjá því að inntakið stendur ekki undir nafni. Við samþykktum miklu metnaðarfyllri áætlun veturinn 2012–2013. Allir þingmenn stóðu á bak við þá áætlun utan einn en síðan var snúið baki við þeirri áætlun. Hæstv. ráðherra setti svo fram nýja áætlun í vor og í fjárlagafrumvarpinu er strax búið að snúa baki við þeirri áætlun. Ég held að þetta sé það sem er bilað og þurfi að laga.

Ef ég fer yfir þetta mál og þá umræðu sem fór fram í hv. utanríkismálanefnd á síðasta þingi þá var talsvert rætt um muninn sem þyrfti að vera á milli framkvæmdaraðila og hins vegar eftirlitsaðila. Ég ætla að nýta tækifærið hér og lýsa yfir mínum efasemdum um að heppilegt sé að framkvæmd og eftirlit sé á einni hendi og utanumhaldið eða löggjöfin líka í rauninni að því leytinu til að hæstv. ráðherra gerir tillögu að löggjöfinni um málaflokkinn. Hæstv. ráðherra fer þá með framkvæmd málaflokksins og eftirlitið með honum í stað þess að sjá til þess að stofnun sem starfar fjær ráðuneytinu fari með framkvæmdina og ráðuneytið hafi eftirlitshlutverki að gegna. Ég vil nefna það að þótt við séum auðvitað með eftirlitsaðila á borð við Ríkisendurskoðun sem kemur og skoðar málið þá er það ekki þetta daglega eftirlit sem þarf að vera til staðar í ríkisrekstrinum. Við getum líka nefnt dæmi úr öðrum ráðuneytum þar sem tilhneigingin hefur fremur verið að styrkja stofnanir og færa framkvæmdaverkefni út úr ráðuneytum til að afmarka betur hlutverk þeirra sem stefnumótandi aðila annars vegar og hins vegar sem eftirlitsaðila með því að stefnunni sé fylgt. Ég hef enn ekki heyrt svör við því hvernig eigi nákvæmlega að koma til móts við þetta eða hvað við græðum á móti, getum við sagt, með þeirri breytingu að setja þetta allt saman.

Ég hef sett fram þá gagnrýni og vil ítreka hana að myndin af þróunarsamvinnu breytist auðvitað við það að fara inn í ráðuneyti. Sums staðar hefur það verið gert þannig þar sem þetta hefur verið fært undir ráðuneyti að þá fara samt sem áður talsvert sjálfstæðar einingar innan ráðuneytanna með málaflokkinn. Ég vil líka benda á að upplýsingagjöf svo dæmi sé tekið frá ráðuneyti annars vegar og sjálfstæðri stofnun hins vegar er tvennt ólíkt. Það er mjög mikil þörf á því að almenningur sé fræddur um þróunarsamvinnu, að almenningur geti fylgst með upplýsingum um þróunarsamvinnu og eigi greiðan aðgang að upplýsingum um hana og það horfir allt annað við í upplýsingagjöf ráðuneytis annars vegar og stofnana hins vegar. Það er bara allt annar handleggur. Ég sé ekki alveg hvernig fólk sér nákvæmlega fyrir sér að þessari upplýsingagjöf verði háttað.

Hér hefur verið talað um að það skipti máli að samræma aðgerðir og að Ísland tali einni röddu í málaflokknum, eins og hér sé einhver ægilegur ágreiningur uppi milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytis. Það hefur enginn getað nefnt nokkurt einasta dæmi um rugling eða ágreining. Við spurðum ítrekað um þetta í nefndinni og ekki var hægt að nefna nein dæmi um rugling eða ágreining á milli stofnunarinnar og ráðuneytisins, en nefnt að það kynni að fást ákveðin hagræðing með sameiningu stoðþjónustu. Ég ætla ekki að bera á móti því að það er örugglega rétt en ef það eru sérstök rök með málinu að Ísland tali einni röddu þá er eðlilegt að við þingmenn óskum eftir því að við fáum dæmi um það að Ísland hafi verið að tala í austur og vestur, að einhver úr þróunarskrifstofu ráðuneytisins hafi komið og sagt eitt og einhver úr stofnuninni sagt annað. En enginn hefur beinlínis viljað nefna slíkt dæmi. Ég veit ekki hvort það er af því að þau eru til en enginn vill upplýsa nefndarmenn í utanríkismálanefnd um þau eða hvort það sé bara svo að á þau dæmi sé ekki hönd festandi. Ég dreg þá ályktun.

Ég vil ræða að lokum, það kemur kannski betur fram þegar maður ræðir þessi mál í annað skipti, tillöguna um aðkomu þingsins, þróunarsamvinnunefnd sem hér er lögð til. Það er lagt til að þingmenn ásamt fulltrúum sem tilnefndir eru af íslenskum borgarasamtökum sem tengjast málaflokknum, fulltrúum frá háskólastiginu, fulltrúum frá vinnumarkaðnum og fulltrúum ráðherra skipi þróunarsamvinnunefnd. Þetta er vissulega svo að gerðar hafa verið athugasemdir við samstarfsnefndina sem hefur verið starfandi, að hún sé ekki nægilega virkur vettvangur. Um það vil ég segja að auðvitað er rétt að spyrja spurninga um skipurit þegar manni finnst vettvangur ekki nægilega virkur en ég velti því fyrir hvort við höfum framfylgt nægilega vel ákvæðum gildandi laga um samstarfsnefnd um þróunarsamvinnu, hvort það megi ekki nýta þann vettvang betur, virkja hann betur og hitt er það sem mér finnst að minnsta kosti mikilvægt, hafandi setið í utanríkismálanefnd á síðasta þingi, að þróunarsamvinna er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Mér fyndist það ansi skrýtið ef sá málaflokkur ætti ekki að vera miðlægur í öllu starfi utanríkismálanefndar.

Það væri gaman að sjá nýjan formann hv. utanríkismálanefndar taka þátt í þessari umræðu og heyra sjónarmið hennar, hvað henni finnst um þá breytingu sem hér er lögð til á störfum nefndarinnar og þingsins þar með. Ég hef mjög mikinn áhuga á því að heyra sjónarmið hennar í þessari umræðu. Kannski er hægt að fá hv. formann utanríkismálanefndar í hús til að taka þátt í umræðunni því þetta varðar aðkomu Alþingis. Ég vil biðja virðulegan forseta að gera ráðstafanir til þess, ef hv. formaður utanríkismálanefndar er ínáanleg, að hún geti komið hér og tekið þátt í umræðunni því við þurfum að fá að heyra hennar sjónarmið og hvort hún telji ekki að þróunarsamvinna sé svo miðlægur þáttur í utanríkisstefnu Íslands — ég tel svo vera og ég heyri ekki betur en hæstv. ráðherra telji svo vera — að utanríkismálanefnd þurfi að taka miklu ákveðnari umræðu um þessi mál. Ég hef stundum saknað þess og hef rætt það, að vísu hefur þeim umleitunum mínum ávallt verið vel tekið af hv. fyrrverandi formanni utanríkismálanefndar, að þessi mál séu sett í meiri fókus hjá nefndinni. Ég hef talið að þau ættu þar veglegan sess skilinn (Forseti hringir.) og velti því fyrir mér hvort við séum ekki að fjarlægja þróunarsamvinnu frá utanríkismálanefnd með þessari tillögu. En ég ítreka ósk mína um að hv. formaður utanríkismálanefndar komi hingað í salinn.