145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður minntist á það sem okkur hér er flestum vel í minni og hv. þm. Össur Skarphéðinsson rifjaði upp þegar við á síðasta kjörtímabili trommuðum upp með nýja áætlun um greiðslur í þróunarsamvinnu sem var svo nánast fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að afnema og við stóðum ekki við okkar eigin fyrirætlanir.

Væntanlega getum við fengið í þeirri jafningjaúttekt sem er að koma — ég veit ekki hvernig það er, hún á að koma 2016, það undrar mig reyndar að ekki skuli vera þolinmæði til að bíða eftir henni — en væntanlega gætum við átt von á því að við fengjum orð í eyra um það að fólki bæri að standa við þær skuldbindingar sem það gefur sjálfu sér og öðrum. Kannski ekki síður það sem maður gefur sjálfum sér.

Hv. þingmaðurinn situr í fjárlaganefnd. Mig langar til að spyrja hana hvort í störfum hennar í þeirri nefnd hafi komið fram — vegna þess að þar kemur náttúrlega gjarnan fram ef stofnanir eru einhvers konar vandræðagemlingar í kerfinu eða eyða of miklu, fara fram úr fjárlögum eða hvernig á að orða það — að Þróunarsamvinnustofnun hafi í þeirri nefnd hlotið gagnrýni fyrir það að fara ekki vel með fjármuni og standast ekki fjárlög.