145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:10]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það, ég held að það sé allra hluta vegna, og líka vegna þess hve það er óþægileg tilfinning sem maður fær af þeim upplýsingum sem eru núna að koma upp í umræðunni um afdrif forstöðumannsins, óhjákvæmilegt að heyra það af munni ráðherrans í eitt skipti fyrir öll hvernig hann hyggst standa að einmitt þeim þætti þess sem í greinargerðinni er kallað starfsmannamál eða yfirfærsla starfsmanna. Hver verða afdrif forstöðumannsins í þessu máli?

Það er auðvitað mjög óþægileg tilfinning sem maður fær ef það er þannig að forstöðumenn í stjórnsýslunni geta hvorki sagt hug sinn né vitnað í fagleg sjónarmið af ótta við aðgerðir, óvild eða ónáð hins pólitíska valds, að fá ekki vinnufrið fyrir þeim pólitíska andardrætti sem kemur niður um hálsmálið á forstöðumönnum. Það er ekki þróun sem við viljum treysta í sessi eða láta viðgangast í nútímavæddu almennu lýðræðisríki eins og við viljum að Ísland sé. Þar eiga að ríkja lágmarksprinsipp um góða stjórnsýsluhætti, aðskilnað framkvæmdarvalds og pólitísks valds.