145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[11:56]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Í afdrifakönnun Barnaverndarstofu sem fjallar um þau börn sem stofnunin hefur haft afskipti af með einum eða öðrum hætti í barnaverndarmálum kemur fram að 41% drengjanna hefur setið í gæsluvarðhaldi eða í fangelsi. Við ræddum áðan þjóðarátak um læsi og mér finnst báðar þessar umræður tengjast vegna þess að fyrir mér liggur ákveðin rót samfélagslegs vanda sem elur af sér afbrot og andfélagslega hegðun í sambandsleysinu á milli þess sem á sér stað í þroskaferli barna og þess hvaða manneskjur þau verða þegar þau eru orðin fullorðnir einstaklingar og hvernig við bregðumst við frávikum.

Þeir, ég segi þeir vegna þess að stór hluti síbrotafólks á Íslandi er karlmenn, hafa verið í snertingu við hið svokallaða kerfi um langa hríð og verið barnaverndarmál eða vandræðabörn í skólum og málefni þeirra í mismikilli vinnslu. Það er eitthvað að í samfélagi þar sem hópar af fólki koma skaðaðir út úr barnæsku sinni og unglingsárum. Þess vegna nefni ég hér þjóðarátak um læsi vegna þess að það er mikil fylgni milli þeirra sem eiga við veruleg hegðunarvandamál og námsörðugleika að stríða og þeirra sem komast endurtekið í kast við lögin.

Það þarf ekki bara að kenna börnum að lesa heldur þarf að stuðla að því að börn og unglingar verði hæfilega funkerandi einstaklingar og ég veit að þetta vita allir sem vinna með börnum og unglingum og ég veit að við vitum þetta hérna líka, en við verðum að setja fjármuni í að gera fagfólki kleift að styðja við fjölskyldur og börn þeirra sem eiga við hegðunarvandamál að stríða og grípa inn í strax á fyrstu stigum, strax í leikskóla og jafnvel fyrr.

Í nýlegri úttekt Ríkisendurskoðunar á barnavernd í landinu kom fram ákall til félags- og húsnæðismálaráðherra um að tryggja sérhæfð meðferðarúrræði á höfuðborgarsvæðinu fyrir börn á aldrinum 16–18 ára sem glíma við alvarlegan fíkniefnavanda, afbrotahegðun og börn sem glíma við fjölþætta geðröskun og hegðunarvandamál.

Þetta er raunverulegt vandamál sem við verðum að takast á við og stjórnvöld verða að bregðast við.