145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[12:25]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Það mál sem hv. þingmaður vakti máls á, sem laut að þeim reglum, þeim skilyrðum eða þeim kröfum sem gerðar eru til ríkisendurskoðunar, hefur verið álitamál. Það er alveg rétt að það fyrirkomulag tíðkast ekki mjög víða að gera þá kröfu að um sé að ræða mann með réttindi löggilts endurskoðanda.

Þetta var eitt af þeim málum sem við ræddum mjög mikið í forsætisnefnd, ekki bara núna við undirbúning málsins heldur ekki síður þegar við lögðum það upphaflega fram. Okkar niðurstaða var eindregið sú að eðlilegt væri að gera þá kröfu til þess manns sem bæri heitið ríkisendurskoðandi að hann hefði heimild til að árita reikninga. Við töldum að þar væri um að ræða kröfu sem eðlilegt væri að gera til ríkisendurskoðanda og þess vegna héldum við okkur fast við það.

Það er alveg rétt að fram kom ábending, m.a. frá fjárlaganefnd, um þessi mál sem endurspeglar, og okkur er það alveg ljóst, að um þessi mál eru skiptar skoðanir, en þetta var eindregin niðurstaða okkar.

Varðandi hitt, að auglýsa eftir ríkisendurskoðanda, er það þannig, eins og við þekkjum, að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi verði kjörinn á Alþingi líkt og tíðkast hefur um umboðsmann og það fyrirkomulag erum við í rauninni þar með að færa yfir á hlutverk ríkisendurskoðanda. Með því er fyrst og fremst verið að undirstrika sjálfstæði ríkisendurskoðanda. Það er mjög mikilvægt að hann geti starfað óháð framkvæmdarvaldinu. Þó að ríkisendurskoðandi heyri undir Alþingi með tilteknum hætti er hann auðvitað ekki þjónn Alþingis í þeim skilningi. Þess vegna er það grundvallaratriði í frumvarpinu og ein meginbreytingin frá gildandi löggjöf að gert er ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi sé kjörinn og þar með er sjálfstæði hans undirstrikað.