145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

uppbygging Landspítalans við Hringbraut.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta eru mjög skemmtilegar umræður og raunar alveg tilefni til að hafa jafnvel sérstaka umræðu um þetta mál. Ég hefði gaman af að taka þátt í henni.

Hvað varðar þetta mat upp á 21 milljarð ætla ég nú ekki að lýsa mig alveg sammála þessari skýrslu en þó fullyrða að jafnvel þó að um 21 milljarð væri að ræða, jafnvel þó að það teldist rétt tala, held ég að hægt sé að slá því föstu að það fengist 21 milljarður og raunar miklu meira en það fyrir allar þessar fasteignir og byggingarrétt á lóðunum þar í kring. Vandamálið hefur verið það að borgin hefur ekki viljað kanna þann möguleika og þá hótað því að taka bara lóðirnar og þetta allt saman í eitthvað annað. Það mundi náttúrlega setja allt í uppnám og ekki viljum við valda því.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir líka á, að það eru heilmiklar fasteignir í Fossvogi. Það þarf að taka það með í reikninginn þegar menn leyfa sér að velta vöngum. Ýmist eru menn þá að skoða þann möguleika að byggja meira í Fossvoginum eða nota þær fasteignir í eitthvað annað. Hv. þingmaður nefndi heilsuhótel en gleymdi að geta þess hvort það yrði einkarekið heilsuhótel (Forseti hringir.) sem mundi auðvitað sprengja þessa umræðu heilmikið upp. Ég held að niðurstaðan sé sú að þetta sé efni sem ástæða sé til að ræða áfram.