145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er það þannig að við höfum ekki fundið faglegu rökin. Við höfum heldur ekki fundið stefnuna, þ.e. með hvaða hætti eigi að koma málaflokkum fyrir í stjórnsýslunni. Það er engin stefna þar í gangi, þannig að ekki fylgja þau rök með í þessu. Hvað stendur þá eftir? Þá stendur það væntanlega eftir að menn eru að reyna að draga til sín fjármagn. Það er bara það sem verið er að gera hér. Það hefur ekkert annað komið fram í þessari umræðu, engin rök, hvorki hvað varðar stjórnsýsluna né hinn faglega þátt. Þannig að það stendur þá eftir. Þá þurfa menn að gjöra svo vel að koma hingað og segja að þetta sé af fjárhagslegum toga og þeir séu að taka til sín fjármagn.

Virðulegi forseti. Ef við erum komin með stjórnsýslu sem stjórnast af því hvað mönnum dettur í hug til að reyna að fegra hina fjárhagslegu hlið ráðuneyta sinna þá erum við komin í býsna mikinn vanda. Ég held að menn ættu núna að taka þetta mál og leggja það aðeins til hliðar og velta því betur fyrir sér, og að minnsta kosti sýna okkur þó þá virðingu, og málaflokknum líka, að reyna að finna upp einhver góð haldbær fagleg rök. Ég held bara að mönnum takist það ekki.

Mér fannst áhugavert að sjá í þeirri skýrslu sem var gefin út af DAC þegar við gengum í þau samtök á síðasta kjörtímabili að talað er sérstaklega um Þróunarsamvinnustofnun og starfsemi hennar hrósað í hvívetna víða út frá faglegum sjónarmiðum. Eitt af því sem mér fannst líka áhugavert var að þar er sérstaklega talað um að dreifing valds, þ.e. frá móðurstofnuninni hér á landi til útstöðvanna erlendis, hafi gengið sérlega vel (Forseti hringir.) og gert það að verkum að menn hafi getað brugðist vel við þörfum heimamanna þar sem verið er að vinna hratt og örugglega. Ég hef áhyggjur af því að fari menn að grauta þessu inn í aðra starfsemi ráðuneytisins þá tapi menn (Forseti hringir.) þeirri starfsemi, þeim hluta starfseminnar sem sérstaklega er verið að hrósa af hálfu DAC. Ég hef áhyggjur af því.