145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hagræðið sem í þessu felst fyrir þá sem njóta ávinninganna af því að vinna saman að þróunarmálum með Íslendingum sé nákvæmlega ekkert. Ég held að fremur sé hætta á að gæði samstarfsins af okkar hálfu minnki. Það hefur verið rökstutt í þessari umræðu að nýtt fyrirkomulag af því tagi sem lagt er til geti dregið úr endursköpun reynslu og þekkingar á málaflokknum innan ráðuneytisins. Það stafar af því að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að starfsmennirnir sem munu koma inn í ráðuneytið í upphafi, ef einhverjir gera það, ég geri nú ráð fyrir því, síðan þeir sem sinna þessum málum, það er bara partur af hinni flutningsskyldu púllíu, fari í tiltölulega skamman tíma, þrjú ár til fjögur ár, til þróunarsamvinnulandanna. Það gerist væntanlega eftir einhvers konar undirbúning, en þeir fara ekki þangað eftir að hafa starfað kannski í áratug eins og núna þótt þeir séu allir af vilja gerðir og án efa fullir áhuga og vel gerðir til verksins. Þetta er dálítið sérstakur málaflokkur, hann krefst þekkingar og reynslu af starfinu. Ég hugsa að smám saman byggist upp reynsla innan utanríkisráðuneytisins, en hún verður ekki eins djúp og viðamikil og sú sem er að finna núna innan ÞSSÍ. Þetta er eitt af því sem menn benda á að geti orðið ein af afleiðingunum. Það kemur til dæmis fram í umsögnum fagaðila frá því í fyrra.

Þannig að í fljótu bragði sé ég engan ávinning af þessu máli fyrir þá sem njóta framlaga af okkar hálfu. Auðvitað óttast ég að hér verði ekki staðar numið. Við skulum ekki gleyma því að þetta var fyrst kynnt að segja má til sögunnar af einum hv. þingmanni Framsóknarflokksins sem stærði sig af því (Forseti hringir.) að hafa tekist að skera niður framlög til þróunarsamvinnu við trog.