145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Tilefni umræðunnar er að nú er að koma upp á yfirborðið í þó nokkrum málum stefna sem núverandi ríkisstjórn rekur á sviði heilbrigðismála sem er vægast sagt umdeilanleg og við höfum séð kristallast í máli sem snýr að því að kona sem er með lifrarbólgu C var látin sækja það fyrir dómi að hún gæti fengið bestu fáanlegu lyf. Henni hefur verið hafnað af íslenska ríkinu, að hún geti fengið lyf sem geta læknað hana og hið sama á þá við um aðra í þeim hópi.

Við höfum önnur dæmi, við höfum dæmi um að settir eru kvótar á það hversu margir eldri borgarar geta fengið lyf sem geta komið í veg fyrir ótímabæra blindu. Þannig er valið og hafnað hverjir fá hverju sinni og fólk er beinlínis skilið eftir. Þetta er að mínu mati gríðarlega óskynsamleg stefna og við í Samfylkingunni höfum mótmælt henni harðlega vegna þess að það eina sem gerist þarna er að vandinn færist eitthvert annað og kostnaðurinn á heilbrigðiskerfið kemur út annars staðar. Í stað þess að fólk geti verið heima lengur, t.d. eldra fólk, er það sett í þann vanda, fyrir utan það að tapa lífsgæðum, að þá verður það líka þyngra á heilbrigðiskerfinu vegna blindu, svo dæmis sé tekið.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kemur síðan fram í fjölmiðlum og ver þetta með þeim rökum að það þurfi að standa vörð um fjárhagsrammann, þ.e. að menn geti ekki sveigt hann til í svona tilfellum. Á síðasta kjörtímabili stóðum við frammi fyrir þeim vanda að við vorum að fara töluvert langt yfir á hverju einasta ári í svokölluðum S-merktum lyfjum, þ.e. lyfjum sem eru notuð til lyflækninga, mikilvægum lyfjum sem mörg hver eru mjög dýr. En það er einfaldlega þannig að þegar einhver þarf á bráðaþjónustu að halda eða einhver þarf á lyfjum að halda sem geta bætt lífsgæði hans, hvað þá bjargað lífi hans, þá eru þau veitt. Þess vegna litum við alltaf svo á að þessi liður hefði og þyrfti að hafa ákveðinn sveigjanleika. Núverandi ríkisstjórn er búin að ákveða að hafa það öðruvísi. Það stendur upp á punkt og prik það sem stendur í fjárlögunum, algjörlega óháð lífsgæðum og lífi fólks.

Þetta er stefna sem ég tel ekki boðlega. Að auki, eins og fram hefur komið, kemur þessi kostnaður fram annars staðar þannig að ríkið er ekkert að spara með þessu. Við erum með S-merktu lyfin í sérstökum fjárlagalið þannig að við erum með lyflækningarnar sérmerktar í fjárlögunum á meðan aðrar greinar innan heilbrigðisgeirans eru í stærri púllíu og þá sjáum við sveiflurnar ekki eins skýrlega og hér.

Við erum líka með fordæmi í fjárlögum fyrir því að við þolum það að óvissa sé um ákveðna fjárlagaliði, meira að segja upp á hundruð milljóna. Það er í endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar. Hvers vegna gerum við það ekki í þessu tilfelli?

Virðulegi forseti. Við þurfum líka að horfa til framtíðar. Við erum að horfa upp á gríðarlegar breytingar á sviði læknisfræðinnar þar sem lyflækningar og lyf eru að verða miklu öflugri en þau eru líka kostnaðarsöm, við vitum það og við gerum okkur grein fyrir því. En hvað ætlum við að gera í framtíðinni þegar fleiri og betri lyf fara að koma? Ætlum við þá að segja nei, við ætlum bara að halda okkur við gamla farið?

Við þurfum að hugsa til lengri tíma og við þurfum að gera ráð fyrir því að geta innleitt hér dýr, mögnuð lyf sem geta bjargað lífi fólks. Um það snýst málið og það þarf að vera sveigjanleiki í kerfinu og við þurfum að ná samstöðu um það hér innan þessara veggja.

Ef við ætlum að reka heimsklassaheilbrigðisþjónustu þurfum við að svara ákveðnum spurningum, í fyrsta lagi: Erum við tilbúin að færa ákveðnar fórnir til þess? Það þýðir að við þurfum þá að horfa frekar á klíníska ráðgjöf en fjárhagsrammann og við þurfum að gera okkur grein fyrir því að inn í fjárhagsrammann þarf sveigjanleika sem tekur mið af klínísku mati, þ.e. læknisfræðilegu mati.

Í þessu tilfelli er ekki verið að fara eftir læknisfræðilegu mati. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að breyta þessu, færa ákveðinn sveigjanleika inn í fjármögnunina á þessum lyfjum þannig að við getum farið að veita heimsklassaheilbrigðisþjónustu. Ef við viljum veita heimsklassaheilbrigðisþjónustu gerum við ekki svona eins og ég hef hér verið að lýsa.