145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[16:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það sem mér finnst vera mikilvægt í þessu sambandi er að óháð því hvað við teljum okkur hafa ráð á á hverjum tíma að verja miklum fjármunum til lyfjakaupa má það ekki líta út eins og nánast tilviljanakennt hvenær ný lyf eru tekin í notkun eða hve margir fá tiltekin lyf. Þá meina ég tilviljanakennt í þeim skilningi að það ráðist af niðurstöðu fjárlaga eða fjárhagsramma jafnvel einstakra stofnana hvort menn fá lyf eða hve margir fá þau, lyf sem sannarlega gætu bætt líf og heilsu fólks eða hve lengi menn þurfa að bíða eftir slíku. Ég þekki ekki nákvæmlega til þess hvernig þessu er hagað í smáatriðum en maður veltir fyrir sér hvort ekki þyrfti að koma til í þessu tilviki einhvers konar sterkara faglegt mat og jafnvel einhver samræmingar- og ákvörðunartökuaðili sem hefði sterkara umboð til að meta þetta og taka ákvarðanir, svona svipað og siglinganefnd gerir varðandi lækningar erlendis, hvort menn mundu ekki frekar sætta sig á niðurstöðurnar og una þeim ef menn hefðu tryggingu fyrir því að faglegt mat lægi til grundvallar og það væri óumdeildur aðili sem hefði það hlutverk að kveða upp úr um þetta á hverjum tíma. Það réðist ekki bara af einhverjum fjárhagsramma heldur af niðurstöðum þessa faglega mats og tryggði þá að allir sem væru í sömu stöðu fengju sömu meðferð.

Ég tek auðvitað undir það að það getur verið mikið að sækja í aukið samstarf við Norðurlöndin í þessum efnum og er eiginlega sorglegt hve hægt það hefur gengið, að það skuli þvælast fyrir mönnum árum saman, það gerði það þegar í tíð fyrri ríkisstjórnar, að breyta lögunum um opinber innkaup eins og að Landspítalinn skuli ekki mega fara í samstarf með öðrum stórum sjúkrahúsum á Norðurlöndunum af því að Ríkiskaup þurfi að sjá um það. Hvaða rugl er það? Við getum ekki þurft mörg ár (Forseti hringir.) til að breyta því. Ég minni líka á Kunstler-skýrsluna og tillögur um jafnvel víðtækara samstarf Norðurlandanna á sviði heilbrigðismála en bara hvað varðar lyfin.