145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Heiða Kristín Helgadóttir hitti naglann á höfuðið áðan þegar hún sagði að fundurinn í morgun hefði verið góður og gagnlegur vegna þess að það var hann. Hann var nauðsynlegur til þess að nefndarmenn í hv. atvinnuveganefnd fengju upplýsingar breitt yfir vegna þess að aðilar í orkugeiranum hafa fundið að verklagi verkefnisstjórnar. Þess vegna var alveg sjálfsagt að leiða þessa aðila saman til þess að nefndarmenn gætu gert sér heildarmynd af því sem er búið að gerast í verkefnisstjórn frá því að hún var sett á stofn. Ég tel að nefndarmenn séu miklu betur upplýstir nú en fyrir fundinn um það hvernig þessi mál standa. Auðvitað eru menn misglaðir yfir því hvernig málum er fyrir komið en að þessi fundur hafi verið settur upp sem einhverjar nornaveiðar eða rannsóknarréttur er bara fullkomin firra. (Forseti hringir.) Þessi fundur var fyrst og fremst til þess að menn gætu glöggvað sig á ástandinu og fengið góðar upplýsingar. Er það ekki það sem við eigum að hafa? Eigum við ekki að hafa góðar upplýsingar til að geta tekið góðar ákvarðanir, herra forseti?