145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

samgönguáætlun, afkoma sveitarfélaga.

[11:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er út af fyrir sig gott að við fáum samgönguáætlun, en dapurlegt um leið ef hún verður að vera enn þá óburðugri en sú sem sýnd var hér síðastliðið vor vegna þess að fjármunir í fjárlögum eru minni og samgönguáætlun þarf þar af leiðandi að skerðast verði ekki gerð breyting á í meðförum þingsins, sem ég vona sannarlega. Veit ekki hvort ég mátti skilja hæstv. ráðherra þannig að það væri freistandi að bíða eftir því hvort einhver úrlausn fyrir samgöngumálin yrði í formi breytinga á fjárlagafrumvarpinu.

Varðandi versnandi afkomu sveitarfélaganna þá held ég að það þoli ekki mikla bið að ríki og sveitarfélög taki þessa stöðu upp. Það er mjög óskynsamlegt að horfa ekki á hina opinberu starfsemi sem eina heild í þessum efnum og misgengi í afkomunni á þann veg að ríkið sé að bæta stöðu sína, sem er að sjálfsögðu gott, og telji sig geta lækkað tekjur sínar á sama tíma og sveitarfélögin eru að lenda í vaxandi vanda. Það er ekki (Forseti hringir.) í þágu velferðarsamfélagsins á Íslandi. Við eigum að líta á þetta sem eina heild og styrkja stoðirnar undir velferðarþjónustunni almennt, hvort sem hún er á vegum ríkis eða sveitarfélaga.