145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

samgönguáætlun, afkoma sveitarfélaga.

[11:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Auðvitað skiptir ásýnd ríkis og sveitarfélaga gagnvart borgurunum máli og að menn horfi á hlutina út frá hagsmunum borgarinnar. Ég held að við hljótum að vera sammála um það.

Varðandi samgöngumálin hef ég nú lýst því hér að það liggur alveg fyrir að það er mikil fjárþörf í samgöngukerfinu sem hefur byggst upp á mörgum undanförnum árum. Við þekkjum alveg orsakir þess. Það er nauðsynlegt að fara í mikið átaksverkefni þar. Svo sannarlega vona ég að okkur takist að fá frekari fjármuni í samgöngumál. Það þarf ekkert að ræða það hver minn vilji er í þeim efnum.

Það var nú þannig við þessa fjárlagagerð að við þurftum að veita töluvert mikið fé í nauðsynlega kjarasamninga. Við vildum líka forgangsraða í þágu velferðarmála. Það þýðir einfaldlega að menn þurfa að taka ákvarðanir af þessu tagi. Að sjálfsögðu stend ég að baki þeim, en ég ítreka þó að það er nauðsynlegt að við förum að sjá frekari fjármuni í samgönguverkefni.