145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

kjarasamningar lögreglumanna.

[11:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli og málefnum lögreglumanna almennt. Það er ágætt að hann nefndi í síðari orðum sínum þá vinnu sem nú er í gangi í ráðuneytinu hvað varðar menntun lögreglumanna. Sú vinna skiptir verulega miklu máli um framtíð lögreglunámsins og umgjörð þess og menntun lögreglumanna. Ég hygg að í því efni sé líka skynsamlegt að líta til símenntunar þó að það sé ekki beint það sem verið er að ræða í þeirri vinnu. Hugurinn leitar mjög mikið í þá átt og það er mikilvægt fyrir lögreglumenn á allri sinni starfsævi að geta bætt við sig þannig að ég held að það sé líka umræða sem við þurfum að taka í framhaldi af þeirri umræðu sem við munum eiga um lögreglunámið sjálft.

Allt er þetta í skoðun og alltaf með það að markmiði að efla löggæsluna hér á landi.