145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

uppbygging ferðamannastaða.

[11:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég er á sömu slóðum og fyrirspyrjandinn á undan mér. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Í lögum um framkvæmdasjóðinn eru talin upp tvö meginhlutverk hans. Það síðara felst í því að fjármagni úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skuli varið til, með leyfi forseta:

„Framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.“

Nú vita það allir sem ferðast með ferðamenn um landið að sumir ferðamannastaðir eru sannast sagna því miður mjög óöruggir fyrir ferðamenn.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hún hafi látið gera úttekt þar sem farið er sérstaklega yfir þá ferðamannastaði þar sem hætta er á að fólk misstígi sig og fótbrotni eða annað. Þeir sem fara með ferðamenn um landið þekkja þessa staði. Hæstv. ráðherra þyrfti ekki að bíða lengi eftir því að fá yfirlit yfir hverjir þessir staðir eru.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi velt því fyrir sér að ríkið fari beinlínis í að taka þarna á. Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér hvort ríkið fari einfaldlega í það að tryggja þessa staði sérstaklega í stað þess að bíða eftir því að misjafnlega öflug sveitarfélög komi með fjármagn á móti?