145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst mjög oft skrýtið hversu mikill tími fer í að ræða tvær tegundir matvæla á Íslandi, annars vegar mjólk og hins vegar lambakjöt. Lambakjöt er eiginlega orðið á borðum landsmanna eins konar sunnudagssteik, mjög góð, og mjólk, það eru áhöld um hvort mjólk sé yfirleitt holl. Það eru margir sem hafa óþol fyrir mjólk. Ég veit ekki hvort það má segja það hér í þessum sal, en af hverju erum við búin að búa til kerfi á Íslandi um þessar tvær tegundir matvæla sem kostar 12–16 milljarða úr opinberum sjóðum? Af hverju erum við búin að setja svona rosalega mikla lagasetningu og reglugerðaumgjörð utan um framleiðslu á þessum tveimur tegundum matvæla?

Mig langar að ræða bjór í þessu samhengi. Ég hef mjög gaman af að tala um bjór. Hér hefur sprottið upp innlend bjórframleiðsla á undanförnum árum. Er það vegna einhverrar sérstakrar lagasetningar héðan eða reglugerðar? Er það ekki bara vegna eftirspurnar eftir innlendum bjór? Hann er mjög góður. Fólk byrjar að framleiða hann. Af hverju getum við ekki nálgast mjólkurframleiðslu og framleiðslu á lambakjöti með þeim hætti að það sé einfaldlega eftirspurn eftir þessum vörum og að fólk muni framleiða þær og fólk kaupi þær? Eigum við ekki að endurhanna styrkjakerfið þannig að við setjum frekar alla þessa milljarða, þessar ótrúlegu fjárhæðir úr ríkissjóði í það að styrkja fólk til að gera hvað sem það vill á þessum jörðum, hvað sem það telur sig geta gert best á jörðunum? Það er miklu betra að binda það búsetu en framleiðslu á þessum afmörkuðu þáttum (Forseti hringir.) neyslunnar á Íslandi.