145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fjallaði í lokaorðum sínum akkúrat um það sem ég gerði kannski ekki nægilega mikið að umtalsefni í ræðu minni áðan, að koma til móts við þau félög sem eru á markaði í dag og sinna ákveðnum hópum. Við getum nefnt Félagsstofnun stúdenta og Öryrkjabandalagið með sín frábæru hús sem þessi félög eiga og leigja út á sanngjörnu verði án þess að þurfa að reikna þar inn einhvern ofsagróða. Félagsbústaðir heitir það í Reykjavík ef ég hef tekið rétt eftir, Búseti og ýmsir aðrir. Þessar aðgerðir þurfa sannarlega að vera þannig vegna þess að drottinn minn dýri, ég er ekki talsmaður þess að ríkið fari að byggja einhverjar blokkir eða hús eða eitthvað slíkt til að fara á leigumarkaðinn nema kannski leigufélag Íbúðalánasjóðs, það væri kannski verkefni fyrir Íbúðalánasjóð. Ég held nefnilega að það sé ekki allt of mikið af verkefnum hjá Íbúðalánasjóði í dag en fullt af peningum vegna þess að fólk leitar annað til að fá lán.

Ef hugað er að aðgengismálum strax með vitund hönnuða þá er það auðvitað besta leiðin og á í rauninni ekki að þurfa að tala um það árið 2015 að taka skuli tillit til þess. (Gripið fram í.) En því miður er það enn þá að gerast og það er þá bara lapsus hjá viðkomandi sveitarfélagi að samþykkja slíkt húsnæði.

Virðulegi forseti. Má ég aðeins minna á eitt, ég veit ekki hvað eru mörg ár síðan að sveitarfélög fóru að haga gangstéttagerð þannig að ekki voru gerðir þessir risastóru gangstéttakantar við gatnamót. Það var gert í þágu fatlaðra, ekki satt, en eru ekki allir sem njóta þess? Hjólreiðafólk, fólk með barnavagna og við sem teljum okkur vera þannig að við getum enn þá gengið óhindruð um. Þetta er miklu betra en vera að ganga eftir þessum köntum. Það þarf að koma því betur inn við frumhönnun að gætt sé að öllum þessum þáttum.