145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

loftslagsmál.

[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hæstv. forsætisráðherra um loftslagsmál. Hæstv. forsætisráðherra flutti þrumuræðu fyrir Sameinuðu þjóðunum þar sem hann lýsti markmiðum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%. Fréttir bárust af þessu og formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fagnaði því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra gengi lengra en áður hefði verið áætlað í áætlunum um samdrátt um losun gróðurhúsalofttegunda. Eitthvað var dregið í land með það síðar um daginn og rætt um að um væri að ræða samstarf við Evrópusambandið og Noreg eins og áður hefði verið gerð grein fyrir af hálfu hæstv. umhverfisráðherra.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, því að það er mikilvægt að hann tali hér beint við Alþingi og greini frá því hvernig þessi 40% samdráttur er hugsaður, hvort þetta sé framlag Íslands eingöngu eða hvort þetta sé gert í samstarfi við aðra.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra, því að þetta er risavaxið mál, hvernig hann sér fyrir sér að þessi samdráttur muni nást, hver hann telji mikilvægustu atriðin þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. hvað varðar samgöngur og orkuskipti í samgöngum; hvort hann telji að stóriðjan eigi að vera undanþegin þegar Íslendingar fara í það að ná þessum markmiðum fram. Þetta er jú allt eitt og sama andrúmsloftið þótt kerfin séu ólík sem er unnið samkvæmt.

Ég bið hæstv. forsætisráðherra um að gera okkur þingmönnum grein fyrir því hvernig hann sér fyrir sér þessi markmið, hvað við munum gera til að ná þeim og hvaða fréttir við munum geta fært öðrum þjóðum á loftslagsráðstefnunni í París í desember.