145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

loftslagsmál.

[15:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er vandlifað, það er alveg rétt. SDG-markmiðin, sem ríma svo skemmtilega við upphafsstafi forsætisráðherra, eru sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna sem tóku við af þúsaldarmarkmiðunum eins og ég hef skilið það. Það tengist kannski ekki beinlínis því hvort Ísland hyggst ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eitt og sér eða í samráði við Evrópusambandið og Noreg, þannig að mér finnst mikilvægt að það komi þá fram hér hvort það sé réttur skilningur að við munum gera þetta í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg.

Hin spurningin, sem ég varpaði hér fram áðan, lýtur að því hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Það liggur fyrir, hvort sem við erum ein á báti eða í samstarfi við aðra til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna, að við munum þurfa að fara í umtalsverðar aðgerðir. Við munum þurfa að fara í umtalsverðar breytingar. Eitt af því sem hefur verið rætt eru orkuskipti í samgöngum sem ég nefndi áðan. Við höfum rætt um stóriðjuna. Það hefur margt verið nefnt til sögunnar.

Ef við ætlum að ná þessum markmiðum — eins og staðan er núna fyrir loftslagsráðstefnuna í París þá erum við ekki að ná því að halda hlýnuninni við 2°, en við verðum þó komin undir 3° ef allir standa við sitt, og við vonum bara að það muni verða svo — þá skiptir máli (Forseti hringir.) að við náum sem bestri sátt hér á Alþingi um það hvernig við ætlum að ná markmiðunum.