145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[15:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Við getum að sjálfsögðu hvenær sem er tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Við höfum gert það. Gagnvart Ítalíu og Ungverjalandi tel ég að það hafi verið þannig fram til þess að menn hafa verið að senda til Ítalíu unga karlmenn en sjálfstætt mat er lagt á viðkvæmari hópa sem teljast konur og börn. Það er ákvörðun sem við tökum sjálf, að vinna með þeim hætti.

Ég vil segja út af því sem hv. þingmaður spyr, hvort við eigum að taka kategórískt aðra afstöðu, að ég held að við verðum að líta til þess að þessi flóttamannavandi sem er ekki á neinum venjulegum skala í Evrópu, að við tökum allar þær ákvarðanir sem tökum að vel ígrunduðu máli þegar við vitum hvaða afleiðingar það hefur og líka hvernig slíkar ákvarðanir ríma við það sem menn eru að reyna að gera í álfunni til að ná tökum á þessum mikla vanda.

Hitt er annað mál, og það finnst mér grundvallaratriði, að við Íslendingar og íslensk stjórnvöld verðum að gera miklu betur í því (Forseti hringir.) að hraða málsmeðferð. Það er alveg ljóst að þessi mikli dráttur leggst mjög þungt á þá sem í þessu standa og getur einmitt valdið slíkum erfiðleikum sem við nú sjáum.