145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

forritun sem hluti af skyldunámi.

127. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sökum tímaskorts ætla ég ekki að vinda mér í neitt sem hér hefur verið sagt heldur frekar færa fyrir því örstutt rök, ef ég get, að forritun ætti að vera grunnfag og skyldufag. Kennsla í forritun ætti að hefjast mjög snemma þegar kemur að menntun.

Sú spurning vaknar alltaf hvort þetta sé fagleg eða pólitísk spurning og ég legg til að við miðum það við eitthvað eins og lestur eða einhvers konar fræðslu um lýðræði og mannréttindi. Jú, það er hægt að kalla þetta faglegar ákvarðanir, útfærslan verður alltaf fagleg eða það skyldi maður ætla, en spurningin um hvaða sess þetta eigi að njóta í grunnþekkingu landsmanna okkar er pólitísk, a.m.k. að einhverju leyti. Kannski skiptir það heldur ekki öllu máli og kannski er það einfaldlega bæði sem ég reyndar tel hugsanlegt.

Ef við miðum þetta við almennt læsi vil ég benda á það að læsi og ólæsi einkennir samfélög. Ólæs samfélög eru óhjákvæmilega frumstæðari en læs samfélög og pólitíkin hefur oft gert það að verkum að átak á sér stað í læsi almennt. Ég legg til að það sé nákvæmlega hið sama þegar kemur að forritun, ekki síst ég þessum tímum.

Því miður hefði ég viljað hafa meiri tíma til að ræða þetta, virðulegi forseti, en lýk máli mínu hér.