145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að nota þennan dagskrárlið, Störf þingsins, til að vekja máls á því sem mér finnst vera alvarlegt hugsunarleysi á landnýtingu Alþingis hér í miðborginni. Alþingi er hægt og bítandi að leggja undir sig, í fullkomnu heimildarleysi og í óþökk borgaryfirvalda, uppbyggingarreit hér við Vonarstræti undir bílastæði þingmanna og starfsfólks þingsins.

Tafir hafa orðið á framkvæmdum, sem er vissulega mjög miður, en það þýðir ekki að Alþingi hafi þar af leiðandi heimild til þess að ráðstafa þessum reit undir bílastæði á meðan. Nýtingarmöguleikar reitsins eru miklir og ég hvet hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að reiturinn verði notaður þannig að sómi sé að.

Mér finnst í þessu dæmi kristallast mjög margt sem er okkur ekki til sóma. Í fyrsta lagi á Alþingi og alþingisfólk að vera fyrirmynd annarra í að nýta sér aðra ferðamáta en einkabílinn. Í því samhengi finnst mér rétt að taka fram að ég er ekki að mæla fyrir því að einkabíllinn sé aldrei notaður heldur að fleiri möguleikar séu notaðir í stöðunni. Eigi að taka þau lög sem við setjum hér trúanleg og þá stefnu sem við mörkum verðum við að ganga á undan með góðu fordæmi.

Rannsóknir og dæmi hafa sannað að eftir því sem infrastrúktúr fyrir bíla verður meiri þeim mun meira fjölgar bílum. Það að leggja undir sig landsvæði fyrir bílastæði þýðir ekkert annað en að þeim sem hingað koma á bílum til vinnu eða annars mun fjölga. Það er ekki góð þróun.

Í annan stað er þetta spurning um virðingu Alþingis fyrir umhverfinu þar sem það er staðsett. Þessi uppbyggingarreitur hefur verið innan girðingar í mjög langan tíma og það setur svip sinn á umhverfið allt. Það eru margar leiðir færar í þessu og það má gjarnan opna þetta svæði upp og nýta sér tímabundin úrræði sem mundu gera umhverfið mannvænna og mun betra.

Svo finnst mér þetta líka vera spurning um sjálfsvirðingu Alþingis. Fyrir mér, horfandi á þetta svæði utan frá, ef ég vissi ekki betur, þá væri ég ekki viss hvort hér færi fram lagasetning fyrir landið allt og því til heilla, eða bílasala. Það er óásættanlegt. Fyrir utan allt þetta er nýtingin á þessu landsvæði, eins og ég sagði áður, (Forseti hringir.) með öllu óheimil og það eitt og sér ætti að vera ástæða fyrir því að við mundum nýta þau bílastæði (Forseti hringir.) sem við höfum heimild til að nota, sem eru 96 að tölu, en hættum að teygja anga okkar út um miðborgina.


Efnisorð er vísa í ræðuna