145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um mistök. Það hafa verið gerð mistök á vettvangi Evrópusambandsins, þar hefur líka margt verið gert rétt, það er með öllu móti. Ég er krítísk í garð Evrópusambandsins. Ég er ekki alltaf sammála öllu sem þar gerist en ég tel eftir sem áður að Evrópusambandið og evrópska myntsamstarfið sé eftirsóknarvert fyrir Ísland. En það er ekki þannig að þar sé allt eins og maður vill nákvæmlega hafa það, þar eru stjórnmálamenn sem eru breyskir eins og íslenskir stjórnmálamenn. Við ættum ekki að hræðast annarra manna spillingu því næg er hún hér þótt við viljum ekki horfast í augu við það. Hún er næg í eftirleik hrunsins þegar eignatilfærsla hefur orðið og slíkt. Ég held að við eigum eftir að fá betri mynd af því eftir því sem á líður.

Aðstaða Grikkja er skelfileg í einu orði sagt en það hefur ekki með aðild þeirra að Evrópusambandinu að gera nema að því leyti að hún hafði jákvæð áhrif á landið sem jók á þenslu þar en neikvæðu áhrifin voru auðvitað þau að ríkið var ekki í stakk búið til að fara inn í evrusamstarfið. Nú reynir á hvort þessi gjaldmiðill heldur en ég held að evran hafi sýnt það að hún lifi af efnahagsþrengingar. Svo sjáum við líka að þær þjóðir sem hvað verst fóru út úr þessum — hvað á maður að segja, hér varð nú fullkomið hrun en mjög alvarlegar efnahagsþrengingar í öllum Evrópuríkjum — en þær þjóðir sem fóru hvað verst út úr því, Írland, Spánn, (Forseti hringir.) Portúgal, Grikkland, láta sér ekki detta í hug að yfirgefa Evrópusambandið eða evrusamstarfið.