145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða annað mál. Mig langar að ræða um boðun fundar í fjárlaganefnd og hvernig fundum hefur verið háttað þar. Það hefur verið sveigjanleiki af hálfu nefndarmanna að vera fram yfir tilgreindan fundartíma sem er til kl. 11 á mánudögum og 11.30 á miðvikudögum, hefur verið samkomulag á þessum haustdögum að gera það.

Á föstudaginn er boðaður fundur í nefndinni sem er utan hins hefðbundna tíma en er þó ætlaður til funda ef mikið liggur undir. Þá er Isavia boðað á fund kl. 2. Fjórir þingmenn voru búnir að gera athugasemdir með mjög góðum fyrirvara um að þeir gætu ekki setið fundinn og við erum þrjár úr í Norðausturkjördæmi sem höfum ekki tök á því að sitja fundinn en þarna er verið að fjalla um málefni sem snerta okkar kjördæmi mjög mikið. Þetta er ekki akútmál, það hefði mátt bíða fram á mánudag.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta: Hver er staða þingmanna þegar þrír eða fjórir þingmenn biðja um það að fundur sé haldinn síðar og það er gert með góðum fyrirvara? Höfum við í rauninni ekkert um það að segja? (Forseti hringir.) Ég veit að hæstv. forseti var beðinn um að ræða við formann fjárlaganefndar og mig langar að fá skýringar á þessu.