145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[13:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það mál sem við erum að ræða er eitt af forgangsmálum Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna er alveg óskaplega skrýtið að enn sem komið er er enginn sjálfstæðismaður, það er enginn meðflutningsmaður málsins kominn á mælendaskrá. Það er einungis flutningsmaðurinn sem hefur talað. Mér finnst þetta mjög skrýtið. Ég undra mig alltaf jafn mikið á því að við skulum ekki eiga lýðræðisleg og opin skoðanaskipti úr pontu Alþingis, því að það er auðvitað þar sem við eigum að vera að ræða málin, ekki einungis í nefnd, við eigum líka að ræða málin fyrir opnum tjöldum. Það skiptir máli.

Mér finnst líka bagalegt að heyra ef það hefur ekki náðst í hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég hefði haldið að ekki þyrfti mjög mikla ályktunarhæfni af hálfu hæstv. ráðherrans til að draga þá ályktun að við hefðum viljað hafa hann með okkur í umræðunni í dag. Það var það sem við fórum fram á (Forseti hringir.) á síðasta þingi. Ég vil ítreka það við hæstv. forseta að hún reyni (Forseti hringir.) að ná í ráðherrann og fá hann hingað til viðræðu við okkur.