145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér svolítið áhugavert vegna þess að vitaskuld er landlæknir og heilbrigðiskerfið hlynnt því að efla lýðheilsu. En það eru fleiri hluti í lífinu en lýðheilsa. Það er mergurinn málsins. Það snýst ekki allt lífið um lýðheilsu. Það snýst ekki allt lífið um það að lifa eins lengi og eins heilbrigðu lífi og mögulegt er. Mannlegt samfélag virkar ekki þannig. Ég skal bara segja það fyrir sjálfan mig og ég held fleiri hérna inni að ég vil miklu oftar fá mér bjór að kvöldi til heldur en leita til læknis, það er vegna þess að það skiptir fleira máli í lífinu.

Það sem skiptir máli líka er að fólk hafi val og ef fólk getur valið um mismunandi staði þar sem eru reglur sem því hentar betur þá hefði ég haldið að sú frelsisaukning, og lýðræðisaukning fullyrði ég, væri jákvæð. Og vissulega eru lýðheilsusjónarmið til staðar í þessu máli, ég dreg ekki úr því en mig langar til þess að þetta mál sé nálgast á pínulítið öðruvísi hátt en vissulega með tilliti til lýðheilsu. En ég sé ekkert því til fyrirstöðu að auka frelsi og taka á þeim mörgu málum sem varða lýðheilsuna. Hvers vegna ættum við ekki að leyfa sveitarfélögum eða einhverjum stöðum úti á landi eða Reykjavík að ákveða þetta meira sjálf?