145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:02]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var að vísu ekki jákvæðasta umsögnin sem kom frá verslun og þjónustu síðast; hún verður vonandi betri núna. Þá langar mig aðeins að koma inn á þetta út frá fjárlaganefnd, sem hv. þingmaður benti á rétt áðan. Við þurfum ekki alltaf að vera föst í því hver hagnaðurinn er, það er hægt að ná tekjunum á margvíslegan hátt.

Hvernig er staðan í fjárlögunum núna? Það er ekki alltaf auðvelt að finna fjármagn í þessi mál þannig að við ættum kannski koma svolítið inn á það hvernig það gæti hjálpað að fá meiri tekjur frá versluninni. Er fjárlaganefnd ekki að berjast við brýnni mál en að halda uppi þjónustustigi ákveðins hluta sveitarfélaga landsins?

Aðeins varðandi lýðræðið. Hv. þingmaður hefur talað um að setja þetta í þjóðaratkvæði. Það eru kannski mörg önnur mál sem mega fara á undan þangað. Er kannski eitthvað hægt að horfa til þess að veita sveitarfélögunum aukið frelsi þannig að þau (Forseti hringir.) taki þá frekar ákvarðanirnar þannig að við förum einhvern milliveg í því?