145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:12]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Þetta var mjög gott sem kom hérna inn á í sambandi við innkaupsverð og framboð og aðgengi og verð.

ÁTVR er ekki vandamál. Samfélagsleg ábyrgð ÁTVR er til fyrirmyndar og hún skorar hátt í öllum úrtökum samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni. Samkvæmt þeim úrslitum sem komu í febrúar á þessu ári þá eru Íslendingar ánægðastir með ÁTVR.

Landsbyggðarfólkið. Þegar ég er úti í kjördæminu get ég ekki heyrt að knýi á að færa áfengi í matvöruverslanir. Þetta er ekki stærsta vandamálið hvort fólk komist í ríkið á fleiri stöðum. Og hvað þá fyrir fólk sem býr utan þéttbýlis í dreifbýlinu úti á landi og þarf hvort sem er að keyra í næsta þéttbýli til þess að komast í verslanir.

Svo er alltaf spurning um það hvort verði meira úrval af áfengi í verslunum. Ætli það verði meira úrval af áfengi og fleiri tegundir og betra hald utan um áfengi í þessum matvöruverslunum heldur en t.d. tegundir af brauði?

Nú hefur maður komið inn í verslanir úti á landsbyggðinni þar sem vöruúrval er af mjög skornum skammti og ég er ekki að kaupa þau rök að verslanir eigi eftir að halda eitthvað betur utan um úrval af áfengi heldur en almennar vörur til heimilishalds svo sem grænmeti, ávexti, pasta o.s.frv. Ég er ekki að kaupa þau rök.

Þá langar mig einnig að spyrja þingmanninn hvort hún hafi heyrt það og hvort hún hafi svipaða sögu að segja hvort þetta sé svona rosalega mikilvægt fyrir landsbyggðarfólk og hvort það sé einmitt þetta mál sem knýi helst á?