145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að gagnrýna í fyrsta lagi lokaorð hv. þingmanns og síðan það sem hún sagði áður, sér í lagi orð um mig og viðhorf mín og flokks míns. Hv. þingmaður lauk ræðu sinni á því að tala um við þyrftum forsjárhyggju og spurði hvernig maður ætti að ala upp börn án forsjárhyggju. Ég veit það ekki, virðulegi forseti, ég efast um að það sé hægt en þá erum við að tala um börn, ekki fullorðið fólk. Það er munur á fullorðnu fólki og börnum og það skiptir máli. Þegar við tölum um frelsið erum við ekki að segja að það eigi ekki að vera nein lög og reglur. Það verður mjög þreytandi að hlusta á þá orðræðu. Til að útskýra fyrir hv. þingmanni, af því að hún segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að Píratar skuli vera með stuttbuxnastrákunum í Sjálfstæðisflokknum, ætla ég að lesa úr grunnstefnu Pírata, með leyfi forseta:

„Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillagan virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.“

Það verður verra, virðulegi forseti, með leyfi:

„Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.“

Það er ekki nóg með að við hlustum á pólitíska andstæðinga okkar heldur eigum við það til að taka mark á þeim og jafnvel skipta um skoðun, ef það kynni að hneyksla hv. þingmann enn meira. Enginn hér hefur talað gegn lögum um bílbelti, enginn hefur sagt að lög eða reglur eigi ekki að gilda, enginn hefur heldur sagt að lýðheilsa og heilsa skipti ekki máli. Ég margítrekaði í ræðu minni að frelsi skiptir máli, heilsa skiptir líka máli. Gott ef ég sagði það ekki orðrétt. En þegar við tölum um frelsið er ekki nóg að vera með þennan „svart eða hvítt, allt eða ekkert“-hugsunarhátt. Hvort sem við ætlum að auka eða minnka frelsið verðum við að gera það á skýrum og málefnalegum forsendum. Við getum ekki farið alla leið ýmist til frelsisins eða forsjárhyggjunnar. Til þess er þessi umræða, þess vegna eigum við að byggja málflutning okkar á betri grunni en þeim að leggja orð í munn pólitískra andstæðinga okkar og hvað þá að líkja fullorðnu fólki við börn.