145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

[14:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fjármagnið, eins og ég gat um í svari mínu, er það sem skiptir hér máli framlagið á hvern nemanda. Síðan er það skólastjórnendanna að ákveða hvernig þessir fjármunir eru best nýttir. Ég held að það fari ekki vel á því að við hér á Alþingi tökum ákvörðun um að skipa þeim málum umfram það sem nú er. En ég veit líka að innan skólakerfisins, rétt eins og hv. þingmaður lýsti af eigin reynslu, er mikill skilningur á þessu.

Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður segir. Ég bý svo vel að vera kvæntur framhaldsskólakennara og þekki þessa umræðu því vel. Aðalatriðið er að það er vaxandi vitund um þetta vandamál í samfélaginu. Við erum opnari í að tala um þetta og viðurkenna þetta sem vandamál. Þess vegna skiptir máli að við séum jafnt og þétt að reyna að auka framlagið til framhaldsskólanna þannig að þeir séu hver fyrir sig í betri færum um að veita þá stoðþjónustu sem þarf að veita með þeim sérfræðingum sem til þeirra verka þarf.