145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:47]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem aðallega hingað upp til að fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Íslenskir bændur hafa beðið lengi eftir ákvæði um að fá að merkja vörur með íslenska fánanum og að betri skilgreining komi á það hvað sé íslensk vara að uppruna og ég fagna því ákvæði sem þarna kemur inn í lögin.

Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra hafi leitt eftirlitsmálið á þann hátt að Neytendastofa skuli taka á því og legg þunga áherslu á að eftirlit með þessu þarf að vera í lagi. Vörur þurfa að vera úr efni sem framleitt er hérlendis, þær þurfa að vera framleiddar hérlendis en ekki vera úr innfluttu efni eins og kom fram í umræðum þegar hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir lagði frumvarpið fram.

Ég er mjög ánægð að sjá þetta loksins koma hingað inn og fagna þessu mjög.