145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:26]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að vona að menn misskilji mig ekki. Ég er mikill stuðningsmaður þessa máls. Ég tel að það hefði átt að fara í gegn í þinginu fyrir löngu síðan. Því miður hefur það ekki orðið vegna íhaldssemi okkar Íslendinga og þingmanna. Þess vegna fagna ég því að þetta mál sé fram komið. Það eina sem ég er að segja er að ég vona að það fái góða umfjöllun í nefnd og þar líti menn hlutlaust á þessi mál og kalli endilega til hagsmunaaðila. Þá er ég líka að tala um fulltrúa lítilla fyrirtækja og annarra sem eiga hagsmuna að gæta í þessu, ekki einungis fulltrúa stórra samtaka, vegna þess að það er að mörgu að hyggja. Yfir heildina litið er auðvitað stórkostlegt framfaraspor að gera þetta og það er stórkostlegt fyrir flest íslensk fyrirtæki sem geta nýtt sér Ísland og íslenska fánann í markaðssetningu. Það segir sig sjálft að þetta er gífurlega jákvætt hvað það varðar. Við megum samt ekki loka á allt annað í umræðunni. Það er það eina sem ég er að benda á.